Ari Svavarsson rifjar upp jólin á Akureyri og veltir fyrir sér um hvað hátíðirnar snúist í raun og veru
Það er margt sem breytist með aldrinum, en jólin fylgja manni í gegnum æviskeiðin í ýmsum myndum. Ari Svavarsson, listamaður, rifjar upp minningar liðinna jóla og heldur því fram að kjarninn hafi alltaf verið sá sami, þrátt fyrir aukna efnishyggju og kaupmannajól nútímans.
„Maður náttúrulega er bara gjörsamlega að tapa sér þegar maður er barn. Og svo missir maður áhugann á þessu þegar maður fer að eldast og verður fullorðinn,“ segir Ari og finnst að hátíðirnar snúist nú meira um að hafa það notalegt og að fá frí úr vinnu.
„En svo þegar maður á lítil börn, þá snýst þetta við, þá fer maður að lifa þetta í gegnum börnin.“
Gamlar hefðir
Ari segir að á æskuheimilinu hafi jólatréð aldrei verið sett upp fyrr en á Þorláksmessu. Þá hafi aðdragandi að jólum ekki verið eins langur og í dag. Á aðfangadag klukkan sex fór faðir hans, Svavar Guðni, alltaf með krakkana í kirkju.
„Það fannst mér lítið spennandi,“ segir Ari og minnist skipslíkans sem hékk í Akureyrarkirkju. „Það bjargaði mér því ég var alltaf að skoða það. Við sátum nálægt því og ég var ekki að hlusta á prestinn, ég var bara að skoða skipið,“ segir hann hlæjandi. Hann segir tímann hafi liðið „ógeðslega hægt“ en að það hafi bara aukið spennuna. „Svo náttúrulega kom maður heim og þá voru jólin byrjuð.“
Kaupmannajól og breytingar
Hann talar um að jólin byrji fyrr og endi seinna í dag, en hann sér þessar breytingar í kapítalísku samhengi fyrst og fremst. „Þetta eru svona kaupmannajól, eins og maður kallar það. Þetta náttúrulega snýst rosalega mikið um bara að kaupa og selja.“
Hann telur að ofgnóttarstemming ríki. „Þetta verður alltaf meira og meira og meira einhvern veginn.“ Hann minnist þess þegar dagatölin voru bara pappírsdagatöl með myndum, „og það var nóg, þú veist, mér fannst það geggjað,“ segir hann. „Svo fór ég í Krónuna um daginn og það er bara allt til. Það er hægt að kaupa snakk almanak!“ segir hann og finnst þetta bara fyndið.
„En svo nennir maður heldur ekki að fara í þennan gír að finnast allt eitthvað ómögulegt núna, þú veist. Þá verður maður bara eins og gamall karl.“ Hann bendir á að heiðin jól hafi líka snúist um ofgnóttarát og drykkju og að sleppa fram af sér beislinu. En hann efast stórlega um að allt hafi verið miklu betra í gamla daga.
Einfaldari jól
Ari telur að maður njóti ekki jólanna ef maður er kúguppgefinn. Hann segir að sér hafi verið „skítsama“ um jólin þegar hann var að byrja að búa í kringum tvítugt og naut þess að láta dekra við sig heima hjá mömmu og pabba um hátíðirnar.
„Svo þegar maður var kominn með fjölskyldu og fór að eiga börn, þá þurfti allt að vera perfect. Það þurfti allt að vera hreint, fara í gegnum hvern einasta skáp og þrífa, og þetta var algjör geðveiki.“ En hann heldur að það hafi verið þannig hjá mömmu sinni upphaflega. „Svo þegar hún var á fullorðinsaldri þá var hún eiginlega hætt að nenna þessu.“
Hann telur það vera það sem hann upplifi núna líka. „Jólin eru alltaf æðisleg en hvað er að vera fullkomið? Þarf allt að vera fullkomið? Koma jólin ekki samt?“

Jólasamvera.
Norðlenskar jólaminningar
Spurður um einhverjar minningar að norðan, kemur fram sterk mynd í huga Ara frá bernsku. Engar verslunarmiðstöðvar hafi verið á Akureyri og því var farið niður í bæ til þess að versla fyrir jólin. Í Hafnarstræti var jólaverslunin og dótabúðin Siggi Gúmm „og það var náttúrulega bara paradís“ að hans mati.
Ari rifjar upp daginn þegar hann og systkini hans fóru niður í bæ að kaupa jólagjafir fyrir foreldra sína með pening frá þeim. Þá hafi þau valið einhverja platta í blómabúð sem var í verslunargötunni. Löngu síðar rakst hann svo á plattana aftur þegar foreldrarnir voru látnir. „Einhvern veginn endar þetta uppi á vegg hjá einhverju barnanna og maður bara spyr svona: Bíddu, er þetta ekki platti sem ég gaf mömmu og pabba þegar ég var tíu ára?“ segir hann hlæjandi.
Jól fullorðinsáranna og kjarninn
Í dag snúast jólin fyrir hann um að hafa það gott og fá börnin heim. „Það skiptir mestu máli,“ segir hann. Hitt skipti í raun engu. Þegar hann horfir til baka eru bestu minningarnar oft frá þeim tímum þegar hann átti lítið. Það hafi aldrei verið peningarnir sem gerðu jólin góð, heldur að eiga fyrir grunnþörfum og geta notið samverunnar. „Fólk þarf að reyna að læra að það er kannski nóg. Svo eru margir sem vinna sér til húðar og verða bara veikir.“
Ari telur að þetta snúist ekki um að kaupa eða selja, aða vera nógu fínn eða hafa nógu hreint. „Þetta snýst bara um að hitta ástvínini sína og reyna að hafa það huggulegt, borða góðan mat og verja tímanum saman. Það hefur ekkert breyst.“

Svavar Axel Malmquist Arason/SAM
Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.