Gyða Árnadóttir: Minningar frá Akureyri

Gyða Árnadóttir
Gyða Árnadóttir

Gyða Árnadóttir bjó á Akureyri frá barnsaldri og flutti austur í Neskaupstað fyrir átta árum. Hún starfar nú hjá Steininum, sem er nytjamarkaður þar í bæ. Þegar Gyða bjó á Akureyri ráku foreldrar hennar ávaxta- og grænmetisbúð þar og tóku hún og systur hennar virkan þátt í því starfi, og sérstaklega um jólin, þar sem mikið var að gera yfir hátíðirnar.

„Mamma og pabbi ráku sérverslun sem var með ávexti og grænmeti. Það var engin önnur verslun á Akureyri bara með ávexti og grænmeti. Verslunin var í Skipagötunni.“

Þegar Gyða var 14 ára keyptu þau ísbúðina Brynju og ráku hana í 3 ár og eftir það keyptu þau blómabúðina í Kaupvangi. „Ég byrjaði 9 ára að vinna í ávaxta- og grænmetisversluninni og ég var eiginlega alltaf að vinna. Þegar ég gerðist dagmamma árið 1998, var ég samt alltaf að hjálpa til í búðunum fyrir jólin. Það var svo ofboðslega skemmtilegt.“

Bílskúrinn alltaf fullur af ávöxtum

„Mandarínurnar, stóru rauðu eplin og vínberin voru vinsælust fyrir jólin. Bílskúrinn var alltaf fullur af ávöxtum um þetta leyti árs og það var rosalega gaman að vera til. Maður fór á fullt í jólavertíðina en mamma og pabbi notuðu jólin mikið til þess að hvíla sig þegar búðin var lokuð yfir hátíðirnar.“

Gyða segir að þessi ekta rauðu jólaepli fáist ekki lengur. „Ég sakna þeirra alveg ótrúlega mikið. Maðurinn minn talar alltaf um eplin, en þau fengu þau erlendis frá því að afi hans sigldi. Þau hétu bara rauð epli, delicious rauð epli. Þau voru stundum alveg hrikalega stór. Foreldrar mínir seldu líka drykki í fernum, epla og sveskju, það þótti líka einstakt.

Svo seldum við líka jólatré sem komu úr sveitinni. Ég er alltaf með þrjú ekta jólatré heima; eitt fyrir framan hús, eitt á svölunum og eitt inni. Þannig vill maðurinn minn hafa það en ég myndi láta mér duga eitt.“

Langir vinnudagar rétt fyrir jólin

Þegar aðsóknin í ávexti og grænmeti var í hæstu hæðum um hátíðirnar þurfti annað hvort að byrja að skreyta snemma, eða þá á Þorláksmessu. Margar verslanir eru enn þann dag í dag með opið lengur á Þorláksmessu en þetta átti líka við um ávaxta- og grænmetisbúð fjölskyldunnar á Akureyri.

„Við vorum alltaf að vinna langt fram eftir á Þorláksmessu, til 11 á kvöldin. Við skreyttum samt alltaf jólatréð snemma en núna skreyti ég aðeins fyrr og tek tré sem fyrst niður eftir jól. Þá finnst mér orðið svo hreint,“ segir Gyða og glottir.

„Það var alltaf möndlugrautur hjá okkur, en það er eitthvað sem ég bý ekki til í dag. Hvítölið var keypt í brúsum sem voru 5 lítrar og 2 lítrar. Pabbi blandaði alltaf malti, appelsíni og jafnvel kók út í.“ Fjölskyldan fékk sér ávallt lambakjöt en síðar fóru þau að velja frekar hamborgarhrygginn góða. Amma og afi Gyðu áttu einnig heima fyrir norðan og fóru þau í jólaboð til þeirra yfir hátíðirnar.

Lokin límd niður

Vegna jólavertíðarinnar var mamma Gyðu oftast búin að baka jólasmákökurnar fyrir 1. desember. Hún þurfti að líma lokin á baukunum niður svo smákökurnar væru enn til þegar jólin gengu í garð.

„Svo var alltaf kvöldkaffi,“ segir Gyða þegar hún talar um seinni hluta aðfangadagskvölds. Aðspurð hvort hún væri enn með slíkt hlær hún og segist varla borða smákökur lengur. „Mamma gerir þetta ennþá en ég er alls ekki mikil smákökumanneskja. Ég bakaði oft með börnunum mínum en þeim fannst svo hræðilega leiðinlegt að fletja út deigið.“

Gyða og systir hennar Þórunn

Gotterí og skemmtun

-Sælgæti sem ekki fæst í dag er einnig ferskt í minni Gyðu, enda margir sem gleyma seint kattartungunum.

„Frændi minn vann hjá Pétri og Valdimar á Akureyri, sem var vöruflutningafyrirtæki. Hann kom alltaf með kassa af gosi, kók og nammi. Þá voru það kattartungurnar sem ég sakna rosalega og allur þessi brjóstsykur sem er ekki til lengur. Þá var allt sett í skál, kattartungur, ópal, tópas og brjóstsykurinn. Ég reyni að finna eins mikið af þessu og ég get í dag. Þær fást ekki lengur, kattartungurnar. Ópalið fæst, en ekki sá blái, og brjóstsykurinn fæst ekki nema innfluttur.“

Tónlist í kirkjugarðinum

Gyða minnist vinsælu jólaballanna í sveitinni og var ferðalagið þangað oft stærsta skemmtunin. Gyða saknar líka góðrar hefðar frá Akureyri sem henni þótti einstaklega falleg og sérstök.

„Það var alltaf spiluð tónlist í kirkjugarðinum, ofboðslega falleg hátíðartónlist. Fólki þótti þetta kannski trufla, en ég sakna þess. Þetta var svo flott. Allir ljósakrossarnir og kertin, og svo jólalögin. Þetta var alveg spes og fallegt. Þetta er oft svo erfiður tími en það má líka vera fallegt. Þetta er eitthvað sem ég sakna.“

Mörgum finnst erfitt að aðlagast nýju umhverfi yfir hátíðirnar og mögulega glatast hefðir þegar fólk færir sig til en Gyða segist finna lítinn mun á því að halda jólin í Neskaupstað eða á Akureyri. „Hvar sem þú ert, þá heldur þú alltaf í einhverjar hefðir.“

Helena Lind Ólafsdóttir/HLÓ

Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.

 

Nýjast