Ég vaknaði snemma í morgun, á Þorláksmessu, það var í raun ennþá nótt og Eyfirska lognið á duglegri hreyfingu. Það var samt ákveðin kyrrð í vindinum og enginn annar farinn á ról þegar ég rölti mér í vinnuna. Það voru allir sofandi heima, komnir í frí svo það var gott að taka daginn snemma. Eyjafjarðará liðaðist á móti mér niður dalinn eins og hún hefur gert frá örófi alda; hún nærir jörðina, gefur landbúnaðarhéraðinu líf og flytur með sér efnivið sem skapað hefur grunn að traustu samfélagi við Eyjafjörð.
Á árinu 2025 höfum við, Eyjafjarðarsveit, haldið ótrauð áfram að byggja upp innviði okkar. Krummakot hefur flutt sig um set og hafið starfsemi sína í stórglæsilegu nýju húsnæði sem beðið hefur verið með eftirvæntingu í mörg ár og í Hrafnagilsskóla hafa framkvæmdirnar tekið stór skref fram á við. Skólasamfélagið allt, bæði börn og fullorðnir, hafa tileinkað sér breytingarnar af einstöku jafnaðarþreki. Sundlaugin hefur fengið mikla yfirhalningu og þar bíður nú nýr heitur pottur og kalt kar sem hefur þegar glatt marga, bæði þá sem sækja hressingu og þá sem leggja kapp á að efla eigið hugrekki í kuldanum.
Í gegnum allt þetta umbreytingarár hefur starfsfólk sveitarfélagsins sýnt það sem ég hef lengi vitað: að hér býr einstakur hópur sem mætir áskorunum með jákvæðni, lausnamiðuðum hugsunarhætti og hlýju. Það er ljóst að samfélagið kann að meta að menntastofnanir, íþróttaaðstaða og umgjörð barna og fjölskyldna sé sett í forgang af sveitarfélaginu. Þessar framkvæmdir snúast ekki aðeins um hús heldur fólk og það að skapa uppeldi, menntun og heilsueflingu íbúa okkar bestu mögulegu skilyrði.

Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar
Það er ekkert lát á þeirri viðamiklu uppbyggingu sem fram undan er. Endurbættur grunnskóli verður tekinn í notkun í áföngum fram til ársloka 2027 ásamt stórbættri íþróttaaðstöðu. Á árinu 2026 verður einnig hafist handa við endurbætur á skólalóð grunnskólans auk þess sem mikil áhersla er á að snyrta umhverfi Hrafnagilshverfis eftir þær viðamiklu framkvæmdir sem hafa verið þar í gangi undanfarin ár. Þá hefur sveitarfélagið verið með í undirbúningi íbúðir sem ætlað er fyrir íbúa sem eru komnir á það lífsskeið að þeir vilja njóta lífsins án þess að vera með eignir sínar bundnar í húsnæði og í návígi við þá þjónustu sem mögulegt er að sækja í samfélaginu svo sem félagsstarf, mötuneyti og íþróttmiðstöð. Þau eru mikil umsvifin undanfarin ár en það eru líka að koma sveitarstjórnarkosningar og fylgir því ávallt nýtt og flott fólk, nýjar áherslur og spennandi ný tækifæri meðan aðrir kveðja á braut á vit nýrra ævintýra.
Komandi sveitarstjórn mun taka við góðu búi þar sem fjárhagur stendur sterkur, innviðir eru traustir og öflugt fólk er í öllum lykilstöðum sveitarfélagsins. Það er virkilega gaman að líta til undanfarinna átta ára, þeirra ára sem ég hef fengið að njóta í starfi sveitarstjóra þessa framúrskarandi samfélags. Maður fyllist stolti að líta yfir þann veg og sjá hversu vel hefur gengið þrátt fyrir einstaka áskoranir, heimsfaraldur og miklar framkvæmdir. Það er ekki sjálfgefið að í pólitísku umhverfi gangi hlutirnir vel fyrir sig en með góðu fólki, samheldinni forystu og góðan hug má yfirleitt finna málum farsælan veg. Það hefur einmitt einkennt sveitarstjórn þann tíma sem ég hef unnið fyrir hana, með öllu því frábæra fólki sem á óeigingjarnan máta leggur samfélaginu lið með ómældri vinnu og metnað til að gera gott betra.
Hér í sveit lifir kraftur frumkvöðlanna, samkennd íbúa og virðing fyrir rótum sveitarfélagsins. Það er bara eitthvað einstakt við það að búa á stað þar sem framtíðarsýn sveitarfélagsins er innblásin af rótum samfélagsins, sögu þess og umhverfi – fjöllunum sem umlykja okkur, ánni sem nærir, og þeirri þrautseigju sem einkennir fólk sem byggt hefur upp heimili sín og atvinnu í þessari fögru sveit.
Það er farið að ilma af skötulykt nú þegar ég skrifa þessar línur, rétt eins og vaninn var í æsku þegar jólahátíðin hófst hjá ömmu og afa. Maður kunni ekki alltaf að njóta stemningarinnar þegar maður var yngri en maður aðlagast meira að segja skötunni og lærir að meta þau gæði sem fólgin eru í hefðum og samveru með fjölskyldu og vinum. Í dag mæti ég hjá Lions, kitla þar bragðlaukana, styrki gott málefni og vona að skatan skelli í hnakka þetta árið líka.
Nú þegar nýtt ár nálgast vil ég þakka ykkur öllum fyrir árið sem er að líða. Fyrir frábært samstarf, fyrir umburðarlyndi í gegnum framkvæmdir, fyrir framlag til samfélagsins – smátt og stórt – og fyrir þá hlýju sem skín í öllu sem hér er gert. Látum 2026 einkennast af því sama.
Gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár
Finnur Yngvi Kristinsson
Sveitarstjóri
Þessi kveðja birtist fyrst á heimasíðu Eyjafjarðarsveitar