Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN tók saman það helsta sem einkenndi starfsemi HSN á árinu sem er að líða.
Það er engum blöðum um það að fletta að rekstur heilbrigðisþjónustu er afar krefjandi og er rekstur HSN á liðnu ári þar engin undantekning. Rekstrarlega stóðum við frammi fyrir áskorunum, þar á meðal verulegan halla bæði á síðasta ári og líðandi ári, sem stafaði að stórum hluta af ófjármögnuðum kjara- og stofnanasamningum. Þrátt fyrir það tókst okkur að viðhalda og styðja við áframhaldandi uppbyggingu á þjónustu. Við höfum unnið markvisst að því að tryggja stöðugleika í rekstri með breytingum á skipulagi og öflugri teymisvinnu, með aukinni áherslu á stafræna ferla með það að markmiði að bæði lækka kostnað en samtímis efla þjónustu.
Þannig hefur árið 2025, þrátt fyrir miklar rekstrarlegar áskoranir, verið á margan hátt gott ár og lærdómsríkt hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Við höfum styrkt innviði, bætt þjónustu og eflt starfsumhverfið. Niðurstöður ársins staðfesta að sú vinna er að skila árangri.
Öflugra starfsumhverfi, aukin starfsánægja og ánægja með þjónustu
Eitt af því ánægjulega á árinu var jákvæð þróun sem varð á vinnustaðamenningu og starfsánægju. Með margvíslegum leiðum til að styðja við mannauðinn svo sem innleiðingu á verkefninu Vellíðan á vinnustað varð jákvæð þróun á starfsánægju. Það sést best í niðurstöðum könnunarinnar „Stofnun ársins“. Þar hækkaði HSN úr 3,76 í 4,1 í heildareinkunn og færðist á örfáum misserum úr neðri hluta listans upp í 15. – 18. sæti meðal stórra stofnana.
Um mitt ár fór í gang þjónustukönnun sem Stjórnarráð Íslands stendur fyrir árlega. Ánægja með þjónustuna hefur aldrei mælst hærri – 91% svarenda lýsa henni sem mjög góðri og frekar góðri og hækkaði heildareinkunnin á milli ára. Viðmót starfsfólks fær einnig afskaplega góð viðbrögð, en 95% svarenda meta það sem frekar eða mjög gott. Þessar ánægjulegu niðurstöður endurspegla samstillt átak starfsfólks HSN á öllum starfsstöðvum þar sem góð og rétt þjónusta er í öndvegi.

Nýsköpun sem mótandi afl
HSN er virkur þátttakandi í samstarfi Veltek um þróun heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Þrjú verkefni HSN voru tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna hins opinbera 2025. Verkefnin tengdust framförum í stafrænni umbreytingu fyrir sjálfvirknivæðingu og einföldun verkferla, innleiðingu teymisvinnu á heilsugæslu til að efla samvinnu starfsfólks og auka heildstæða þjónustu og vellíðan á vinnustað. Þessar tilnefningar gefa vísbendingar um að starfsfólk HSN er framsækið og stofnunin nútímaleg. HSN hlaut tvenna styrki í ár frá Heilbrigðisráðuneytinu, annars vegar 10 milljónir kr. fyrir innleiðingu á snjalllausninni Memaxi fyrir HSN á Blönduósi með það að markmiði að efla fjarheilbrigðisþjónustu á starfssvæði sínu og hins vegar 2,5 milljónir kr. fyrir kaupum á búnaði sem gerir HSN kleift að þjónusta einstaklinga með sykursýki með fjar-augnskimunum með aðstoð gervigreindar.
Hjúkrunarheimili bætast í hóp HSN
HSN var falið að taka við rekstri tveggja hjúkrunarheimila á árinu, annars vegar Sæborgar á Skagaströnd í byrjun árs og nýverið var tilkynnt um að HSN tæki við rekstri hjúkrunarheimilisins Hornbrekku á Ólafsfirði á nýju ári. Þá rekur HSN rúmlega 200 hjúkrunar- og sjúkrarými á Norðurlandi, á Ólafsfirði, á Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki, Siglufirði og Húsavík.
Samningur um byggingu nýs hjúkrunarheimili í Norðurþingi undirritaður á árinu og í framhaldinu var verkefnið boðið út. Heimilið, sem verður með um 60 rýmum, mun bæta verulega þjónustu við íbúa svæðisins og aðbúnað starfsfólks. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki árið 2027.
Skipulagsbreytingar til framtíðar
Sameining heilsugæslunnar á Dalvík og starfsstöðvarinnar í Fjallabyggð var stærsta skipulagsbreyting ársins. Markmiðið var að styrkja mönnun, auka stöðugleika í læknisþjónustu og tryggja íbúum svæðisins öflugri og samhæfðari þjónustu. Sameiningin tók formlega gildi 1. september síðastliðinn og undir nýrri einingu starfa nú um 80 manns í yfir 50 stöðugildum. Sameiningin hefur farið vel á stað og margt sem bendir til að markmiðin sem lagt var upp með séu að nást. Stærri eining á einnig auðveldara með að koma að rekstri hjúkrunarheimilisins Hornbrekku sem ráðuneytið tilkynnti nýverið að myndi færast til HSN 1. apríl nk.
Frestun byggingar annarrar heilsugæslustöðvar á Akureyri
Ákveðið var að fresta byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar á Akureyri um að minnsta kosti fimm ár eftir endurmat á forsendum, samtöl við hagsmunaaðila og jákvæðar niðurstöður þjónustukönnunar. Núverandi umgjörð, með nýrri stöð í Sunnuhlíð og starfsemi á Hvannavöllum, hefur gefið mjög góða raun, og í stað þess að kljúfa klíníska þjónustu verður lagt upp með að styrkja núverandi þjónustu. HSN hefur samið um stækkun stöðvarinnar sem verður tekin í notkun í apríl á næsta ári.

Fagfólkið okkar
Við hjá HSN búum vel að metnaðarfullu og öflugu starfsfólki. Við höfum um árabil stutt við starfsfólk sem vill fara í starfstengt nám m.a. í hjúkrun og sjúkraliðun og er mjög ánægjulegt að sjá áhuga á því. Í dag eru yfir 30 starfsmenn í námi í sjúkraliðun og þá stefnir í að 18 læknar verði í sérnámi í heimilslækningum hjá HSN á árinu 2026 svo tekin séu dæmi. HSN fylgir fast eftir þeirri stefnu að styðja og hvetja starfsfólk til að bæta við sig námi sem nýtist í stafi.
Nefna má sérstaklega mikilvægt og sögulegt skref þegar Elín Arnardóttir, hjúkrunarfræðingur hjá HSN varð fyrst til að ljúka doktorsnámi í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Hún er jafnframt fyrsti hjúkrunarfræðingurinn við HSN með doktorsgráðu.
Við höfum undanfarið kynnt störf starfsfólks okkar á mörgum sviðum á vefsíðu okkar hsn.is. Tilgangurinn með því er að laða nýtt fólk til starfa hjá okkur og draga fram þann fjölbreytta mannauð og þekkingu sem er innan HSN, sem og að kynna starfsemi okkar.
Til framtíðar
HSN mun á nýju ári leitast við að halda áfram að styrkja innviði sína, byggja upp þjónustu, laga skipulag og efla starfsumhverfi í krefjandi umhverfi. Markmiðið er að hafa sterka, og skilvirkari heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi íbúum til heilla. Rekstrarumhverfi heilbrigðisþjónustu verður þó áfram áskorun og ekki útilokað að nauðsynlegt verið að ráðast í breytingar til að laga reksturinn að fjárveitingum.
Ég vil sérstaklega hrósa öllu starfsfólki HSN. Þau eru hjartað og burðarásinn í allri okkar starfsemi. Það sést glöggt í niðurstöðum þjónustukannana, þar sem fram kemur að skjólstæðingar leggja ríka áherslu á hlýlegt viðmót, fagmennsku og samhygð starfsfólks á öllum starfssviðum. Þá viljum við þakka fyrir góðar gjafir sem stofnuninni hefur borist frá hollvinum og samtökum á árinu og eru okkur ómetanlegar.
Við hjá HSN óskum Norðlendingum og landsmönnum öllum gleðilegrar og friðsællar hátíðar, heilsu og hamingju á nýju ári.
Höfundur er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands