Allur er varinn góður

Elsa Similowski, dýralæknir  Myndir Aðsendar
Elsa Similowski, dýralæknir Myndir Aðsendar

-Elsa Similowski, dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Eyjarfjarðar, veitir gæludýraeigendum heilræði fyrir hátíðirnar

Það er mikilvægt að njóta hátíðanna með fjölskyldunni. Til þess að geta notið góðra stunda þurfa allir að vera öruggir, þar á meðal gæludýrin. Á jólunum er hefð að baka smákökur og elda fínan mat. Því miður fyrir dýrin okkar, sem verða oft spennt yfir því sem gengur á í eldhúsinu, eru þessi matvæli þeim hættuleg.

Laukur, súkkulaði og bein á bannlista

Öll laukfjölskyldan og matur sem hefur verið eldaður með lauk er slæmur fyrir hunda og ketti. Efnin í lauknum ráðast á rauðar blóðfrumur sem gerir það að verkum að dýrin verða veik. Það getur tekið nokkra daga, jafnvel vikur, fyrir veikindin að koma fram en við vitum að ef hundar eða kettir borða einhvers konar lauk verða þau veik á endanum.“

Næst nefnir hún súkkulaði. Þar er kakóefnið hættulegt. Því hærra sem kakóhlutfall súkkulaðsins er, því hættulegra er það. Elsa nefnir einnig að rúsínur valdi nýrnavandamálum hjá köttum og hundum. Súkkulaðirúsínur séu því mjög hættulegar.

„Ég er ekki mikið fyrir það að gefa hundum bein vegna þess að þegar hundurinn nagar það getur það brotnað. Hvössu beintbrotin og beinflísar geta skaðað meltingarveg bæði með því að stífla og skera innyfli.“ Hún segir fólk einnig þurfa að passa sig á því að gefa dýrum ekki kjöt. „Venjulega gefum við dýrum þann hluta kjötsins sem við viljum ekki, eins og fituna, en ef dýr borðar of mikla fitu of hratt getur það valdið brisbólgu sem er alvarlegur sjúkdómur.“

Í staðinn segir Elsa að gefa eigi rauða hluta kjötsins, þ.e.a.s. vöðvann. Þó skulu eigendur passa að gefa hvorki salt né reykt kjöt. Þessar tvær tegundir geti verið sérstaklega slæmar fyrir ketti, sem drekka venjulega ekki nóg vatn.

Þið þekkið gæludýrin ykkar betur en við

„Ef hundurinn er vanur að taka upp rusl eða aðra hluti af götunni þarf að passa þá sérstaklega um hátíðirnar. Hundar eru sérstaklega líklegir til að grípa mat í pakkningu og borða plastið með matnum. Einnig getur verið gott að geyma jólagjafir þar sem hundurinn nær ekki til eða dreifa huga hundsins með því að leika við hann.“

Kattaeigendur hafa efalaust séð köttinn sinn reyna að klifra upp jólatréð. Þó að kettir séu góðir að lenda geta þeir þó meitt sig við það að detta í klifrinu. Við það að klifra getur jólaskraut dottið af trénu og brotnað. Þá geta glerbrot skaðað köttinn þó hann klifri niður tréð og lendi vel. Líkt og með hunda má leika við köttinn til að halda honum uppteknum. Einnig er mikilvægt að hafa góðan fót undir trénu til að minnka líkur á að það detti ef kötturinn kemst í það.

Borðar og teygjur: Varúð!

Elsa nefnir einnig hættuna sem getur skapast af borðum utan af jólagjöfum. „Líkt og með alla spotta finnst köttum gaman að leika við borða en þeir geta gleypt borða, ekki af því að þá langi til þess en þeir kannski sleikja borðann og hann festist við tunguna á þeim. Ef þeir byrja að gleypa borðan reyna þeir að gleypa hann allan, bara til þess að koma honum burt.“ Þetta getur verið hættulegt þar sem borðinn getur valdið stíflu í meltingarfærum. Hún segir hárteygjur geta skapað sama vandamál. Ef köttur eða hundur gleypir borða eða teygju skal hringja strax í dýralækni

Hátíðirnar líka stressandi fyrir gæludýrin

Það kannast flestir við stressið sem fylgir jólunum og nýju ári. Fyrir dýrin getur stress myndast út frá gestagangi, nýrri lykt og hávaða. Áramótin geta því verið gæludýrum erfið.

„Fyrir ketti getur hjálpað að útbúa öruggt rými, eins og herbergi sem þeim líður vel í og jafnvel útbúa staði sem kötturinn getur falið sig á í því rými. Síðan er hægt að fá róandi lyf og fæðubótarefni hjá okkur sem vinna gegn stressinu. Sem dæmi seljum við Calmex fyrir bæði hunda og ketti.“

Alltaf á vaktinni

Elsa segir eigendur geta komið og rætt við dýralækna um hvaða lausn sé best hverju sinni. Þá nefnir hún eina vöru í viðbót sem heitir Happy Hoodie. Varan virkar eins og buff sem maður setur um höfuð gæludýrsins og veitir því öryggi með því að dempa hljóð.

Að lokum ítrekar Elsa að það sé alltaf hægt að hringja í dýralækni á vakt ef eitthvað kemur upp á. Það sé alltaf dýralæknir á vakt. Þau vilja að eigendur hringi og allar spurningar varðandi gæludýr eru velkomnar. „Allur er varinn góður. Vinsamlegast hringið um leið og þið haldið að eitthvað sé að. Það er betra að vera viss um allt sé í lagi.“

 

 

Baldvin Kári Ólafsson/BKÓ .

Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.

Nýjast