Jólamyndir eru orðnar jafn sjálfsagður hluti af jólunum og laufabrauð, kakó og jólatónleikar. Flestir eiga mynd sem þeir horfa á ár eftir ár, og það er ótrúlegt hvernig rétta myndin setur mann beint í jólagírinn. Hér eru tíu jólamyndir sem fanga jólaandann á ólíkan hátt, sumar klassískar, aðrar pínu stormasamar, en allar algjörar jóla nauðsynjar.
Die Hard (1988) Eilíf umræða er um það hvort Die Hard sé jólamynd. Sumir berjast fyrir því, aðrir sjá hana sem hreinan hasar sem gerist á aðfangadagskvöld. En það breytir því ekki að það er ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með John McClane bjarga eiginkonu sinni úr háhýsi sem hryðjuverkamenn hafa tekið yfir. Enginn snjór og engar jólahúfur, nema þegar einn hryðjuverkamannanna birtist með húfu sem á stendur: „Now I have a machine gun. Ho ho ho.“ Þess vegna situr Die Hard þægilega í 10. sæti: ekki hefðbundin jólamynd, en ómissandi jólahefð fyrir marga.
Miracle on 34th Street (1947) Hlý, róleg og klassísk jólamynd. Maður sem segist vera hinn raunverulegi jólasveinn birtist í Macy’s, og þótt hann virðist klikkaður í fyrstu nær hann smám saman að endurvekja trúna á undrum, sérstaklega hjá lítilli stúlku sem hefur hætt að trúa. Einlæg og mjúk jólamynd sem minnir á að litlu undrin eru oft þau stærstu
Jingle All the Way (1996) Kannski ekki hámenning, en örugglega jólastemning. Arnold Schwarzenegger leikur föður sem þarf að finna ófáanlega Turbomandúkku áður en jólin renna upp. Útkoman er brjálað Jóladagssjokk fullt af misskilningi, slagsmálum, jólatónlist og góðum anda. Ekki endilega besta myndin, en fáar eru jafn skemmtilega jólalegar.
How the Grinch Stole Christmas (2000) Jim Carrey fangar hér þennan klassíska karakter með glæsibrag. Myndin gefur Trölla dýpri baksögu, með einmanaleika og útskúfun sem útskýrir jólaandúðina. Seuss-íski heimurinn er litrík blanda af truflandi draumi og töfrum, og myndin er löngu orðin föst jólahefð.
National Lampoon’s Christmas Vacation (1989) Ein fyndnasta jólamynd sem gerð hefur verið. Chevy Chase leikur Clark Griswold, hinn dæmigerða fjölskylduföður sem vill gera jólin fullkomin, og allt fer auðvitað í rugl. Brjáluð, hávær og hlý-jólaleg mynd sem minnir á að jólin verða aldrei fullkomin, og það er einmitt fegurðin.
A Christmas Carol (2009) Jim Carrey leikur bæði Scrooge og jólaandana þrjá og gerir það af mikilli innlifun. Myndin er dökk, dramatísk og ævintýraleg og fangar anda Dickens-sögunnar á áhrifaríkan hátt. Trú útgáfa sem samt tekst að snerta mann á nýjan hátt.
Home Alone (1990) Jólamynd sem flestir alast upp við. Kevin er skilinn eftir einn um jólin og þarf að verja húsið sitt gegn tveimur innbrotsþjófum. Gildrurnar eru orðnar goðsagnakenndar og myndin blandar saman hlýju, húmor og spennu á fullkominn hátt.
Scrooged (1988) Beitt og skemmtileg nútímaútgáfa af A Christmas Carol. Bill Murray leikur kaldan sjónvarpsstjóra sem fær heimsókn frá jólaöndum og er neyddur til að horfast í augu við sjálfan sig. Inni í myndinni er verið að framleiða sjónvarpsþátt um A Christmas Carol, svo raunveruleiki, háðsádeila og jólagaldur blandast saman. Frank vill auglýsa jólin eins og hasarmynd, en andarnir hafa aðrar hugmyndir.
A Christmas Carol / Scrooge (1951) Klassískasta og áhrifamesta útgáfan af sögunni. Alastair Sim leikur Scrooge af ótrúlegri dýpt og myndin fangar bæði myrkrið og hlýjuna í frásögninni. Svart-hvíti stíllinn nýtir ljós og skugga á áhrifaríkan hátt og dregur mann inn í jólaandann frá upphafi til enda.
It’s a Wonderful Life (1946) Af mörgum talin besta jólamynd allra tíma. Jafnvel Batman og Robin vildu bara komast heim að horfa á hana í teiknimyndaþættinum Christmas with the Joker (1992), það segir sitt. Sagan af George Bailey minnir á að líf hvers einstaklings hefur gildi og áhrif sem hann sér kannski ekki sjálfur. Myndin fangar jólaandann í allri sinni mynd: umhyggju, samfélagi, fjölskyldu og þakklæti. Hún er hjartnæm, dramatísk, gleðileg, og jólamyndin sem allar aðrar eru mældar við.
Hvort sem jólin þín eru meira Die Hard eða meira Miracle on 34th Street, eiga þessar myndir það sameiginlegt að koma manni í jólagírinn, hvort sem það er með tárum, hlátri eða smá sprengingu.

Stefán Arnar Pétursson/SAP
Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.