„Þetta setur tóninn fyrir jólin“

Björgunarsveitin sameinuð á fallegum vetrardegi þar sem samstaða og góð stemning ráða ríkjum
Björgunarsveitin sameinuð á fallegum vetrardegi þar sem samstaða og góð stemning ráða ríkjum

Jólasveinarnir halda hefðinni á lífi í Reykjadal.

Ár hvert á aðfangadagsmorgni klæðast félagar Hjálparsveitar skáta í Reykjadal jólasveinabúningum og hefjast handa við eitt af rótgrónustu verkefnum sínum: dreifingu jólakorta til íbúa sveitarfélagsins. Hefðin hefur verið hluti af jólahaldi í Reykjadal um áratugaskeið og er orðin fastur liður í hátíðarhöldum margra íbúa svæðisins.

Um miðjan desember hefst söfnun jólakortanna, þar sem sveitungar og aðrir tengdir svæðinu geta skilað inn jólakortum sem þeir ætla að senda til vina og fjölskyldu. Björgunarsveitin sér síðan um að dreifa þeim á aðfangadagsmorgun.

Þetta hefur notið mikilla vinsælda og taka margir þátt ár hvert. Á sama tíma hefur þetta orðið ákveðið tákn um nálægð og tengsl íbúanna, sérstaklega í samfélagi þar sem margir þekkja hver annan vel.

Þrautreynt skipulag

Þegar björgunarsveitin hefur tekið við kortunum sjá sjálfboðaliðar sveitarinnar um að flokka þau eftir svæðum til að einfalda dreifingarferlið. Um er að ræða skipulag sem hefur mótast og þróast í gegnum árin, þar sem markmiðið er að tryggja að dreifingin fari fram með sem skýrustum og árangursríkustum hætti.

Undirbúningurinn hefst oft nokkrum dögum áður, þegar félagar fara yfir búnað og skipta með sér verkefnum til að tryggja að allt gangi hnökralaust.

Jólasveinarnir leggja af stað

Á aðfangadagsmorgun hittast félagarnir í húsnæði sveitarinnar þar sem síðasta yfirferð fer fram. Þá eru tæki sveitarinnar ræst og meðlimir klæddir í búninga. Þegar allt er tilbúið leggja jólasveinarnir af stað og dreifa kortunum á milli bæja.

Jólasveinarnir ganga hús úr húsi og afhenda kortin persónulega. Margir íbúar eru orðnir vanir komu þeirra og gera ráð fyrir þeim sem hluta af morgninum.

Einn íbúi sem rætt var við segir að heimsóknir jólasveinanna hafi alltaf sérstaka merkingu fyrir heimili hennar: „Stemningin er alltaf svo hátíðleg, skemmtileg og spennandi. Þetta er frábær byrjun á dagskrá aðfangadags og setur tóninn fyrir daginn.“

Minningar og stemning í sveitinni

Íbúinn rifjar jafnframt upp eina minningu sem hefur setið sérstaklega í henni frá því hún var barn:

„Uppáhaldsminningin mín er þegar ég var lítil og það snjóaði alveg ótrúlega mikið á aðfangadag. Við bjuggum á annarri hæð og jólasveinarnir klifruðu upp á svalirnar til okkar og stukku svo niður í snjóskaflinn fyrir neðan. Ég gleymi því aldrei.“

Þrátt fyrir einfalt eðli verkefnisins hefur það sterka stöðu í samfélaginu og markar upphaf hátíðarhalda á mörgum heimilum. Íbúinn vonar líka að hefðin haldi áfram um ókomin ár:

„Ég vona að þessi fallega hefð haldi áfram, þótt maður taki eftir því að kortunum hefur hægt og rólega fækkað með árunum. Þetta er eitthvað sem ég tel mikilvægt að við höldum í.“

Umfangsmikið verkefni

Jólakortadreifingin er ekki einungis táknræn heldur einnig áþreifanlegur hluti af samfélagsstarfi Hjálparsveitarinnar. Verkefnið byggir á sjálfboðavinnu og samstöðu, og í gegnum tíðina hafa margar kynslóðir sveitarmanna tekið þátt í því. Fyrir marga félagsmenn er þetta jafnframt einstakt tækifæri til að mæta sveitungum sínum á persónulegan hátt og dreifa gleði í leiðinni.

Þótt verkefnið sé hátíðlegt er það jafnframt umfangsmikið. Allt þarf að ganga áfallalaust fyrir sig, frá móttöku kortanna til flokkunar og afhendingar. Á hverju ári berast fjölmörg kort sem þarf að flokka og koma á rétt heimili. Að dreifingu lokinni snúa félagsmenn aftur í húsnæði sveitarinnar, ganga frá búnaði og halda síðan heim til fjölskyldu og vina til að halda jól.

Samfélagsleg hefð sem lifir áfram

Þrátt fyrir að samskipti fólks hafi breyst á síðustu árum hefur þessi hefð haldist nánast óbreytt. Enn senda margir handskrifuð jólakort og treysta á björgunarsveitina til að koma þeim á áfangastað. Það endurspeglar bæði væntumþykju fólks fyrir hefðinni og sterka trú á samfélagslegt hlutverki sveitarinnar.

Verkefnið er nú fastur liður á aðfangadagsmorgni í Reykjadal og svo virðist sem jólasveinarnir muni áfram ganga hús úr húsi, bera út kort og halda þessari sérstöku hefð á lífi, jafnvel þótt tímarnir breytist.

Hilmar Örn Sævarsson/HÖS

Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.

Nýjast