Síðustu misseri hefur verið mikil umræða um menntamál á Íslandi sem ég tel vera afar jákvætt og fagna mjög. Við getum öll verið sammála um að það sé nauðsynlegt að ígrunda reglulega hvað gengur vel og hvað má betur fara í menntamálum.
Á Akureyri höfum við á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að efla menntastofnanir okkar, allt frá fyrstu árum barna í leikskóla og áfram upp grunnskólagönguna. Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér. Þetta er árangur samstarfs foreldra, kennara, skólastjórnenda, starfsfólks og síðast en ekki síst þeirra sem taka ákvarðanir um fjármagn og forgangsröðun.