Börnin skapa framíðina

Karen Erludóttir, verkefnastjóri Barnamenningarhátiðarinnar.
Karen Erludóttir, verkefnastjóri Barnamenningarhátiðarinnar.

Þann 8. september sl. hófst Barnamenningarhátíðin Framtíðin okkar á Húsavík og mun hún standa fram til 19. þessa mánaðar. Markmið hátíðarinnar eru fjölþætt en snúa meðal annars að því að hvetja til virkrar þátttöku barna í samfélaginu, gefa sjónarmiðum barna um bæinn sitt gildi, gera Húsavík að betri stað fyrir fjölskyldur, hlúa að sköpunargáfu barna, efla vísindalega og listræna færni, svo sem hönnun, smíði og málun og ekki síst að skapa vitund um umhverfisáskoranir í nærumhverfinu í bænum. Hátíðin er styrkt af Barnamenningarsjóði, Sóknaráætlun Norðurlands eystra og Barna og menningarmálaráðuneytinu . Hagsmunasamtök barna á Húsavík og STEM Húsavík standa að viðburðinum.

Vinnan hófst í skólunum

Karen Erludóttir er verkefnastjóri hátíðarinnar en hún segir í samtali við Vikublaðið að fyrsti áfangi verði verkefnavinna barna í skólum Húsavíkur en sú vinna hófst í vikunni.

„Fyrstu vikuna fyrir sjálfa hátíðina verða verkefni unnin í skólunum, þ.e. Borgarhólsskóla og Grænuvellum og svo verða þau með smiðjur helgina eftir. Alls sex smiðjur þar sem krakkarnir eiga á einn eða annan hátt að hugsa hvernig þau vilja að Húsavík sé í framtíðinni. Hvað vilja þau að bæjarfélagið bjóði upp á. Hvað er gott hérna og hvað viljum við bæta. Hvað er það sem gerir gott samfélag og hvað viljum við taka út,“ útskýrir Karen.

Fá börnin til að skapa framtíðina

Yfirskrift hátíðarinnar er „Framtíðin okkar“ sem Karen segir að sé einskonar regnhlífarhátíð. „Undir henni eru tvær minni hátíðir: Í fyrsta lagi sex smiðjur, sem hugsaðar eru fyrri 4-13 ára og svo hin vinkillin á hátíðinni er fyrir unglinga og verður í samstarfi við Draumaleikhúsið og Castor media. Þar eiga krakkarnir að velta því upp hvaða störf þau vilji að verði til í bænum í framtíðinni,“ útskýrir Karen og bætir við að landsbyggðin sé að missa alveg ótrúlega mikið af góðu og hæfu fólki, ekki bara af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar heldur líka út úr landinu.

„Hvað getum við gert til að þessi störf verði í boði á Húsavík í framtíðinni? og hvað getum við gert til að krakkarnir geti upplifað drauma sína í sinni heimabyggð?,“ veltir Karen upp en þessar spurningar kjarna tilgang viðburðarins.

Vilja snúa við hættulegri byggðaþróun

„Þetta er bara staðan og þróunin heldur áfram í þessa átt ef ekkert er að gert. Ef við breytum þessu ekki núna þá eigum við bara eftir að horfa á eftir næstu kynslóðum til annarra staða. Við ætlum að leggja okkar af mörkum til að gera Húsavík eftirsóknarverða fyrri öll og ekki síst barnafjölskyldur,“ segir hún.

Þá bendir Karen á að síðan 1998 hafi fjöldi íbúa á svæði Norðurþings staðið nokkurn vegin í stað en aftur á móti hafi börnum á aldrinum 0-16 ára hins vegar fækkað um 12%. „Þannig að það eru miklu færri barnafjölskyldur að velja sér að búa hérna en var áður og við viljum snúa því til fyrri vega.

Hátíðinni lýkur með opnu húsi í Safnahúsinu á Húsavík þar sem börnin sýna afrakstur vinnu sinnar gestum og gangandi. Rúsínan í pylsuendanum er svo lokahóf í Safnahúsinu föstudaginn 19. september. „Þá ætlum við að grilla pylsur, verðum með plötusnúð og alls konar leiki. Bara almennilegt partý,“ segir Karen að lokum.

 

Nýjast