Lögreglan vill að við höfum varan á

Lögreglan hefur sent frá sér viðvörun vegna hvassveðurs.
Lögreglan hefur sent frá sér viðvörun vegna hvassveðurs.

Lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér viðvörun til okkar sem hér búum vegna hvassveðurs sem búast má við að skelli á hér á okkar slóðum eftir sólarhring og ef spár rætast mun veðrið ekki ganga niður fyrr en um miðjan jóladag!

Eða eins og segir í áðurnefndri viðvörun:

,,Við viljum nú í aðdraganda jólanna vekja sérstaka athygli á því að Veðurstofan hefur gefið út viðvaranir, gular og appelsínugular, á Norðurlandi eystra á Þorláksmessukvöld sem og á aðfangadag vegna suðvestan storms, hviður geti náð allt að 40 m/sek um miðjan dag á aðfangadag jóla. Mun þessi vindsperringur ekki ganga niður fyrr en um miðja dag á jóladag.

Í texta á síðu Veðurstofunnar segir spáin m.a. um Norðurland eystra varðandi veðrið að aðfangadag,

,,Sunnan 18-28 m/s, hvassast vestan til á svæðinu, vindhviður geta farið yfir 40 m/s við fjöll. Hættulegt að ferðast vegna vinds, sérílagi fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi. Lausamunir eru líklegir til að fjúka og staðbundið foktjón mögulegt".

Samhliða storminum þá má vænta þess að hitastig geti farið eitthvað yfir 10 stiginn á aðfangadag á Norðurlandi.

Gangi þetta eftir mun það þýða talsverða röskun á samgöngum, á það bæði við um í lofti sem og á jörðu niðri.

Á þetta sérstaklega um Tröllaskaga og Eyjafjarðarsvæðið þó svo að íbúar á öðrum svæðum Norðanlands verði einnig varir við þetta.

Hvetjum við því alla að huga að ferðum sínum í takt við þessar upplýsingar sem og að fylgjast mjög vel með stöðunni hverju sinni, m.a. á síðum Veðurstofunnar og Vegagerðarinnar.

Að svo komnu viljum við biðja byggingarverktaka að huga vel að þessu á sínum byggingasvæðum áður en í jólafrí verður haldið svo að ekki þurfi að kalla til mannskap yfir hátíðirnar til reddinga og frágangs á byggingarefnum og vinnupöllum og þá einnig til að koma í veg fyrir slys og tjón."

 

 

Nýjast