Áhersla á úrbætur og snyrtilegt umhverfi á iðnaðarsvæðum

Tökum höndum saman, gerum Akureyri enn fallegri
Tökum höndum saman, gerum Akureyri enn fallegri

Í vor sendi Akureyrarbær út hvatningu til allra lóðarhafa iðnaðar- og athafnalóða í bænum þar sem þeim var bent á mikilvægi þess að fara í tiltekt.

Jafnframt var hvatt til þess að sótt væri um stöðuleyfi fyrir gáma, í þeim tilvikum sem það átti við. Markmiðið með þessari hvatningu var að hvetja til úrbóta og halda svæðunum hreinum og öruggum.

Nú í haust var send áskorun um úrbætur til þeirra lóðarhafa þar sem upplýsingar um muni utan lóða lágu fyrir. Í þeim tilvikum var bent á ákvæði byggingarreglugerðar sem heimilar beitingu dagsekta þegar ásigkomulag lóða er ekki viðunandi. Áður en til þess kæmi var veittur 30 daga frestur til að bregðast við og koma munum innan lóðarmarka eða fjarlægja þá eftir atvikum.

Í þeim tilfellum þar sem lóð er í sameign, og fleiri en einn aðili deilir húsnæði eða lóð, hvílir ábyrgðin á öllum eigendum í sameiningu.

Akureyrarbær leggur áherslu á samvinnu og lausnamiðaða nálgun og hvetur lóðarhafa sem telja sig ekki geta lokið tiltekt innan gefins frests til að senda inn framkvæmdaáætlun. Í slíkri áætlun skal koma fram hvernig og hvenær lóð verði tekin í gegn. Slíkar áætlanir skulu sendar til skipulagssviðs á netfangið skipulag@akureyri.is.

Ásýnd Akureyrar skiptir okkur öll máli og hreint og snyrtilegt umhverfi skapar jákvæða ímynd. Tökum höndum saman, gerum Akureyri enn fallegri og komum í veg fyrir frekari aðgerðir með góðri samvinnu.

akureyri.is sagði fyrst frá

Nýjast