Ævintýrin sem enda vel eru best ! - Snorkstelpan okkar snýr aftur

Frá framkvæmdunum s.l. sumar     Mynd Skógræktarfélagið
Frá framkvæmdunum s.l. sumar Mynd Skógræktarfélagið

Síðastliðið sumar reis múmínhús í Ævintýralundinum í Kjarnaskógi. Ungir og aldnir glöddust en stormur í vatnsglasi brast á og kvittur um ólögmæti framkvæmda, brot á höfundarrétti, fyrirhugaðar málsóknir rétthafa osfrv barst út, kyntur upp af virðulegum fjölmiðli úr borginni á smelluveiðum.

Hið rétta er að við höfum frá upphafi átt afar góð og innihaldsrík samskipti við rétthafa, framleiðendur og innflytjanda. Í samvinnu við alla þessa aðila er þessa dagana einmitt verið að undirbúa næsta áfanga Ævintýraskógarins sem lítur dagsins ljós í sumar.
 
Veðrabrigði sumars leiddu þó í ljós eina skyssu sem okkur hafði orðið á. Í skóginum stóð stytta ein um árabil af Snorkstelpunni á gönguskíðum. Styttan sú ásamt fleirum var smíðuð af börnum í Listasmiðju, hluti af lestrarátaki þar sem líkneskjum af frægum ævintýrapersónum var komið fyrir í Kjarnaskógi til að hvetja til aukins bóklesturs ungmenna. Snorkstelpan er höfundaréttarvarin, höfundarréttur er jú eitthvað sem að sjálfsögðu ber að virða og því fjarlægðum við stúlkuna úr skóginum strax í vor og færðum í skemmu Skógræktarfélagsins þar sem hún eyddi svo sumrinu.
 
Borið hefur á að yngri gestir skógarins hafi spurt hvort mögulegt sé að Snorkstelpan eigi afturkvæmt á sinn gamla stað. Á dögunum viðruðum við í samtali við Kristínu vinkonu okkar á rétthafaskrifstofunni ytra þessa sömu spurningu og svarið var einfaldlega á þá leið að í ljósi jákvæðs samstarfs og greinilegs tilfinningalegs gildis fyrir börn og fjölskyldur á Akureyri samþykki þau málaleitan. Jafnframt óskar hún okkur öllum gleðilegra jóla og við sendum að sjálfsögðu öll hlýjar þakklætis og jólakveðjur í hennar hús 
Snorkstelpan mætir því á árlega jólatrésskemmtun Skógræktarfélagsins nú á sunnudaginn þar sem hægt verður að bjóða hana velkomna heim.
 
Að því loknu verður henni svo komið fyrir á framtíðarstað í Ævintýraskóginum þar sem hún vonandi stendur keik um aldir !
 
Skógræktarfélagið sagði fyrst frá

Nýjast