,,Ég er kominn hingað til að vinna titilinn"

Fjöldi leikmann skrifaði í kvöld undir nýja samninga. Myndir/epe
Fjöldi leikmann skrifaði í kvöld undir nýja samninga. Myndir/epe

Það var húsfyllir á Gamla Bauk fyrr í kvöld þegar þjálfarar karla og kvennaliðs Völsungs voru kynnt formlega en fyrr í þessum mánuði var tilkynnt um ráðningu Patrick De Wilde frá Belgíu sem aðalþjálfari karlaliðs Völsungs. Þálfari kvennaliðsins er Sarah Catherine Elnicky, en hún hefur starfað sem þjálfari hjá Völsungi í allnokkur ár.  

Patrick er ævintýramaður sem hefur lifað og hrærst í knattspyrnuheiminum alla sína ævi. Mynd/epe.

Patrick hefur starfað sem þjálfari, tæknilegur ráðgjafi, aðstoðarþjálfari, leikmannanjósnari og leikgreinandi á sínum ferli og þjálfað aðallið í Belgíu, Kína, Íran, Sádi-Arabíu og Túnis sem dæmi. Hann hefur verið aðstoðarþjálfari Ungverska landsliðsins og var síðast landsliðþjálfari kvennalandsliðs Nepal!

Patrick steig á svið og kynnti sig sjálfur, hann sagðist hafa trú á ungu liði Völsungs og talaði beint til leikmanna og sagði að þeir gætu náð árangri ef þeir bara sýndu hungur. Hann sagðist vera kominn til Húsavíkur því hann vildi fara í grunninn og vinna með ungum hæfileikamönnum, „Ég er kominn hingað til að ná árangri og ég er kominn hingað til að vinna titilinn,“ sagði hann og uppskar mikil fagnaðarlæti úr sal.

Það fór ekki framhjá neinum viðstöddum að Patrick er líflegur karakter, sjarmerandi og fullur tilhlökkunar að takast á við þetta nýja verkefni sem aðalþjálfari karlaliðs Völsungs.

Þá var kynntur nýr samstarfssamningur á milli Völsungs og GPG seafood, sá stærsti sinnar tegundar. Samningurinn felur m.a. í sér að Húsavíkurvöllur mun heita GPG-völlurinn og íþróttahöllin mun heita GPG höllin.

Að lokum skrifaði fjöldi leikmanna undir nýja samninga, bæði í karla og kvennaliðinu.

Nýjast