Gagnaversfyrirtækið atNorth vann umhverfisverðlaun Data Center Dynamics (DCD) fyrir nýstárlega og ábyrga hönnun gagnavers fyrirtækisins á Akureyri. Í þessum flokki atti atNorth kappi við þrjú önnur alþjóðleg gagnaversfyrirtæki. Þá var gagnaver atNorth á Akureyri líka tilnefnt í flokki gagnaversverkefna ársins í Evrópu.
Verðlaun DCD eru mjög virt í alþjóðlegum gagnaversiðnaði, en sum stærstu tæknifyrirtækja heims eru á meðal verðlaunahafa í gegnum árin.
Verðlaunin, sem eru fyrir áþreifanlegan árangur við að draga úr umhverfisáhrifum gagnavera, voru veitt við hátíðlega athöfn á viðburði Data Center Dynamics í Lundúnum 10. desember. Úrslitum réði hönnunarupplegg stækkunar gagnaversins á Akureyri og áherslur atNorth á að sameina umhverfisvernd og félagsleg og efnahagsleg áhrif til að tryggja sjálfbæran vöxt til langframa.
„Við erum hæstánægð með að ICE03 gagnaver okkar á Akureyri hafi hlotið viðurkenningu fyrir jákvæð áhrif á staðbundið umhverfi sitt,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth. Hann segir að til að tryggja sveigjanleika og langlífi iðnaðarins verði að nálgast þróun stafrænna innviða á nýjan hátt. „Gagnaver eru grunninnviðir nútímasamfélags, en uppbygging þeirra og rekstur hefur líka í för með sér margvísleg önnur áhrif og tækifæri, svo sem með nýtingu glatvarma, afleiddum störfum og beinni þátttöku í nærsamfélaginu. Heildræn nálgun á starfsemina, sem finna má í hönnunaruppleggi atNorth, leggur grunn að góðum samfélagsáhrifum gagnavera fyrirtækisins til lengri framtíðar.“
Gagnaverið á Akureyri nýtur góðs af svölu loftslagi og endurnýjanlegri orku sem gerir dregur töluvert úr orkunotkun við kælingu töluvbúnaðar gagnaversins. Þá voru við byggingu þess notuð sjálfbær efni á borð við límtré í stað stálbita og íslensk steinull, auk þess sem gætt var að því að byggingar féllu vel að umhverfi og landslagi.
Sömuleiðis gerir hönnun allra nýrra gagnavera atNorth ráð fyrir búnaði til endurnýtingar glatvarma, en á Akureyri á atNorth í samstarfi við sveitarfélagið um nýtingu varmans til samfélagsverkefna.
atNorth horfir líka til fleiri þátta en umhverfisins því lagt er upp með að framkvæmdir efli nærsamfélagið og efnahagslíf þess. Við byggingu fyrsta áfanga ICE03 á Akureyri komu yfir 90 prósent starfsmanna úr nærsamfélaginu og hefur fyrirtækið skuldbundið sig til staðbundinna ráðninga þar sem mögulegt er.
Gagnaver atNorth á Akureyri átti líka þátt í að Farice setti þar upp nýjan afhendingarstað þjónustu fyrir útlandasambönd, þaðan sem gögnum er miðlað beint til Evrópu. Þetta eykur verulega öryggi og áreiðanleika fjarskipta á svæðinu öllu.
Þannig var við veitingu verðlaunanna horft til þess að gagnaverið gagnist ekki eingöngu notendum þess heldur einnig nærsamfélaginu og hagkerfi þess. Það geri stækkun gagnaversins að raunverulegu fyrirmyndarverkefni fyrir gagnaver framtíðarinnar.

Frá vinstri Chris Larsen , Tracey Pewtner og Howard Shutt frá atNorth.
Þetta segir í tilkynningu frá attNorth