Þessi rúmlega miðaldra sem þetta skrifar birti grein fyrir réttu ári um að vera búin að fá upp í kok af jólunum. Greinin var skrifuð beint frá hjartanu en það sem var áhugaverðast, voru viðbrögðin sem ég fékk vegna hennar.
Það var engin meðalmennska sem einkenndi þau. Ég var ýmist úthrópuð sem letingi með sjálfsvorkunn á alvarlegu stigi eða að yfir mig helltust samúðarkveðjur frá þeim sem þekktu og upplifðu það sama og ég.
Ég viðurkenni hér og nú að eftir því sem lengra líður frá starfslokum, nýt ég aðventunnar og jólanna æ betur. Atið byrjar í nóvember þegar net-afslættirnir taka öll völd. Tengdadætur mínar hafa aðstoðað mig við að gera kjarakaup og tel ég mig orðna nokkuð glúra þegar kemur að því að nýta þessi tilboð. Þarna fæst sannarlega mun meira fyrir hverja krónu fyrir utan hversu gott það er að ljúka jólagjafakaupum svona snemma.
Hvert fór verðskynið?
Það vekur reyndar athygli að þótt svarti föstudagurinn sé liðinn og sá einhleypi líka, halda kaupmenn áfram að auglýsa „stórkostleg“ verð á hinu og þessu. Og þegar að er gáð, er allt árið undir! Sumar verslanir; nefni engin „húsgagnaverslananöfn“, eru með afslætti allar helgar. Hvernig má það vera? Hvenær er „rétt“ verð í boði og hvert er hið rétta verð? Neytendasamtökin hafa af veikum mætti reynt að vara fólk við þegar þessi tími gengur í garð og hvetja fólk til að vera á varðbergi. En það er eiginlega ómannlegt að ætla að fylgjast með verðlagi enda verðskyn, að minnsta kosti mitt, löngu horfið. Ég gæti ekki þótt ég ætti lífið að leysa sagt hvað pottur af mjólk kostar í dag.
En aftur að aðventunni. Nú þegar tími minn er nægur hef ég gefið mér góðan tíma til að hitta hina ýmsu vinkonuhópa og eiga með þeim notalega aðventustund á veitingastöðum og rölti um miðborg Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, sem hefur skotið sér hátt á vinsældalistann með nýrri ásýnd miðbæjarins og hinu árlega Jólaþorpi sem verður sífellt glæsilegra. Í þessum árlegu ferðum rekumst við á marga viðlíka hópa sem gera sér glaðan aðventu-dag.
Ég gef mér líka tíma til að rækta kroppinn enda engin afsökun til annars og um miðjan mánuðinn var jólaísinn kominn í frystinn. Já, öðruvísi mér áður brá! Jólagjafainnpökkun er að ljúka og ég er farin að telja niður! Stefnan er nú sett á að bregða sér af bæ og finna ró í bústaðnum með tilheyrandi göngu- og pottaferðum. Kannski fer ein smákökusort í ofninn við undirleik jólalaga svona rétt til að bæta upp árangurinn í ræktinni.
Og þá er komið að því að viðurkenna fyrir sjálfri mér að jólin eru æði! Á meðan heilsan er góð og þeir sem standa manni næst eru á góðum stað í lífinu, er ekki yfir neinu að kvarta!
Ég óska lesendum Vikublaðsins gleðilegra jóla.