Úrbætur gerðar á lóðinni við Hamragerði 15

Umgengni á lóðinni við Hamragerði 15 á Akureyri hefur lagast mikið, bílum og öðrum lausamunum hefur …
Umgengni á lóðinni við Hamragerði 15 á Akureyri hefur lagast mikið, bílum og öðrum lausamunum hefur fækkað verulega.

„Það er auðvitað jákvætt að ráðist hafi verið í nauðsynlegar úrbætur á lóðinni í Hamragerði. Það er hins vegar dapurlegt hversu langan tíma ferlið tók og hversu mikilli hörku nefndin þurfti að beita til að knýja fram úrbætur,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.

Nauðungarsala á eigninni við Hamragerði 15 á Akureyri fór fram í september vegna ógreiddra dagsekta. Þær dagsektir sem lágu til grundvallar nauðungarsölunni hafa nú verið greiddar, ásamt innheimtukostnaði, alls rúmlega 3 milljónir króna.

Bílum fækkað á lóðinni að undanförnu

Á undanförnum vikum hefur umgengni um lóðina lagast mikið og hefur bílum og öðrum lausamunum innan lóðarmarka fækkað verulega.

„Þetta var langt og tímafrekt ferli sem hafði á endanum í för með sér verulegan kostnað fyrir lóðarhafa. Kröfur Heilbrigðisnefndar voru skýrar frá upphafi og því hefði auðveldlega verið hægt að bregðast við miklu fyrr og með mun minni tilkostnaði,“ segir Leifur.

Hann kveðst vona að umgengni um lóðina verði með þeir hætti í framtíðinni að ekki þurfi að koma til frekari afskipta nefndarinnar. „Ég held að enginn sé neitt sérstaklega spenntur fyrir því, hvorki Heilbrigðisnefnd, lóðarhafi né íbúar í nágrenninu,“ segir hann.

Nýjast