Greinin birtist fyrst í Prentútgáfu Vikublaðsins sem kom út fimmtudaginn 4. desember sl.
Það er eitthvað sérstakt við kaffihús. Þau eru ekki bara staðir til að fá sér kaffibolla – þau eru samkomustaðir, hlýleg horn þar sem fólk hittist, spjallar og nýtur góðra veitinga. Á Húsavík, þar sem lífið er rólegt yfir veturinn en ferðamannastraumurinn mikill yfir sumarmánuðina, er nýtt kaffihús orðið að uppáhaldsstað margra. Dísu Café opnaði í sumar og hefur frá fyrstu stundu vakið mikla athygli og góðar viðtökur.

„Mig hefur alltaf langað til að eiga bakarí eða kaffihús,“ segir Fanndís Dóra Qypi Þórisdóttir, eigandi Dísu Café. „En ég bjóst aldrei við að það yrði að veruleika – ég asnaðist aldrei til að læra að verða bakari.“ Þrátt fyrir það lét hún ekki hugfallast, því eins og hún bendir á: „Það er hægt að opna kaffihús án þess að vera lærður bakari.“
Áður en Dísu Café varð að veruleika var önnur hugmynd á teikniborðinu. Fanndís og eiginmaður hennar, Roxhens Qypi höfðu íhugað að opna bakarí í samstarfi við aðra. Þau buðu í húsnæði og lögðu mikla vinnu í viðskiptaáætlun, en bankinn setti of háar kröfur um verð á húsnæði og búnaði. „Við gleymdum þessari hugmynd,“ segir hún en draumurinn lifði áfram.
Tækifærið kom óvænt. Yfirmaður eiginmanns Fanndísar, sem á húsið sem þau leigja í dag, heyrði af hugmyndinni og hvatti þau til að láta reyna á þetta í gömlu bifreiðastöðinni. „Það þurfti vissulega að breyta miklu,“ rifjar Fanndís upp, „en á endanum sáum við þetta sem tækifæri sem við gátum ekki látið framhjá okkur fara.“
Þannig varð Dísu Café til – hugarfóstur Fanndísar, sem nefndi staðinn eftir sér. „Það kom aldrei annað nafn til greina,“ segir hún brosandi. Kaffihúsið er í eigu Fanndísar, eiginmanns hennar og móður hennar, Svandísar Jóhannesdóttur, en Fanndís sér sjálf um að baka mest af því sem boðið er upp á. „Ég er með snúðana, cookies, ostaslaufur, bollakökur og fleira,“ útskýrir hún, „en mamma sér um að baka allt þetta gamla góða.“
Eiginmaðurinn leggur einnig sitt af mörkum – hann er frá Albaníu og hefur kynnt gestum fyrir albönsku bakkelsi sem hefur notið mikilla vinsælda.
Opnunin var engu lík. „Það var náttúrlega bara sprengja þegar við opnuðum um Mærudagshelgina,“ segir Fanndís og hlær. „Ég man ekki einu sinni eftir opnunarhelginni – það var svo brjálað að gera að þetta er bara í blackouti,“ segir Fanndís hlæjandi.
„Fyrsti dagurinn var stressandi, en strax á laugardeginum fór allt að ganga betur. Viðtökurnar hafa verið vægast sagt dásamlegar,“ bætir hún við.
Sumarið var annasamt og haustið einnig, en nú í vetur hefur róast aðeins eins og búast má við. „Heimafólk er duglegt að koma og það er komið ákveðið mynstur á þetta hjá okkur. Ég myndi segja að þetta gangi bara vel,“ segir Fanndís stolt.

Fanndís segir að þessir fyrstu mánuðir rekstrarins hafi verið fram úr björtustu vonum og að henni sé þakklæti ofarlega í huga vegna þess hve heimafólk hefur tekið staðnum vel. Ekki síst þessvegna þótti Fanndísi tilvalið að gefa til baka til samfélagsins. Í október tóku þau þátt í Bleikum október og styrktu Krabbameinsfélag Suður-Þingeyinga. „Við ákváðum að allur ágóði af tilteknum vörum færi í þetta góða málefni og bættum við smá framlagi sjálf,“ segir Fanndís.
70 þúsund krónur söfnuðust, en þau ákváðu að bæta við það sem upp á vantaði upp í 100 þúsund áður en framlagið var afhent.
Það er ljóst að Dísu Café er meira en kaffibolli og kökur – það er staður sem byggir á draumi, fjölskyldusamstöðu og hlýju viðmóti. Og ef viðtökurnar í sumar eru einhver vísbending, þá á þetta kaffihús bjarta framtíð á Húsavík.