Ekki brugðist við kröfum um tiltekt á athafnasvæði Auto ehf.

Umgengni um athafnasvæði Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd er enn slæm og ekki hefur verið bru…
Umgengni um athafnasvæði Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd er enn slæm og ekki hefur verið brugðist við margítrekuðum kröfum um úrbætur Mynd HNE

„Umgengni um athafnasvæði Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd er enn slæm,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Ítrekað hefur verið gerð krafa um úrbætur og lögð áhersla á að sá hluti svæðisins sem snýr að þjóðvegi verði hreinsaður og spilliefni fjarlægð af lóðinni.

Hann segir kröfum um úrbætur ekki sinnt og hafa dagsektir verið lagðar á síðan í lok október 2024. Innheimtuaðgerðir standa yfir og lýkur þeim væntanlega með nauðungarsölu verði ekki bætt úr ástandinu.

Erfitt að átta sig á þessari háttsemi

„Til viðbótar við slæma ásýnd lóðarinnar að Setbergi hefur Heilbrigðisnefnd gert athugasemdir við þá háttsemi Auto ehf. að leggja númerlausum bílum á almennings- og einkalóðir innan Akureyrarbæjar. Það sem af er ári hafa 10 slíkar bifreiðar verið fjarlægðar af lóðum fyrirtækja, fjölbýlishúsa og af opnum svæðum í bænum, auk þess sem límt hefur verið á margfalt fleiri bíla,“ segir Leifur og að erfitt sé að átta sig á tilgangi þessarar háttsemi.

Þess ber þó að geta að frá því að Hamragerði 15 var selt á nauðungarsölu hafa bílar á vegum fyrirtækisins ekki verið áberandi innan bæjarmarka Akureyrar, en það eru ákveðin tengsl þarna á milli. Nýlega barst þó kvörtun vegna númerslausra bíla í eigu Auto ehf. á landareign í Þingeyjarsveit.

Nýjast