SAk fær 5,5 milljónir til fjarvöktunar lungnasjúklinga

Á meðfylgjandi mynd eru: Jóhanna María Oddsdóttir, hjúkrunarfræðingur, gjörgæsludeild, Þórdís Rósa S…
Á meðfylgjandi mynd eru: Jóhanna María Oddsdóttir, hjúkrunarfræðingur, gjörgæsludeild, Þórdís Rósa Sigurðardóttir, deildarstjóri, göngudeild lyflækninga og Hafdís Sif Hafþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur, lyflækningadeild Mynd SAk

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að úthluta 50 milljónum króna til sex verkefna sem styðja við markmið byggðaáætlunar stjórnvalda um eflingu fjarheilbrigðisþjónustu. Verkefnin fá styrk til þróunar og innleiðingar fjölbreyttra lausna sem auka aðgengi landsmanna að sérfræðiþjónustu, óháð búsetu.

Heilbrigðisráðuneytið leggur fram 30 milljónir króna af heildarfjárhæðinni en 20 milljónir koma úr byggðaáætlun. Hæstu styrkirnir renna til verkefnis um fjarvöktun bráðveikra nýbura á landsbyggðinni og til innleiðingar á langtímaeftirliti með langveikum sjúklingum með nýtingu gervigreindar.
Sjúkrahúsið á Akureyri hlaut 5,5 milljóna króna styrk til að koma upp búnaði og verklagi til fjarvöktunar sjúklinga með langvinna lungnasjúkdóma. Markmiðið er að efla sjúklinga í eigin meðferð, tryggja samfellu í þjónustu og bregðast fyrr við versnunum. Um er að ræða 12 mánaða tilraunaverkefni sem mun nýtast við áframhaldandi þróun fjarheilbrigðisþjónustu á sjúkrahúsinu.

Þórdís Rósa Sigurðardóttir, deildarstjóri á göngudeild lyflækninga, segir afar mikilvægt að hefja slíka vegferð að innleiða fjarheilbrigðisþjónustu. „Við erum ákaflega ánægð með að fá þennan styrk, enda skiptir þetta verkefni miklu máli fyrir okkar skjólstæðinga. Með fjarvöktun getum við fylgst betur með heilsufari sjúklinga, brugðist fyrr við breytingum og þannig aukið bæði öryggi sjúklinga og samfellu í þjónustunni. Heilsuhvatning til hollra lífshátta er ákveðinn þáttur sem fjarvöktun getur haft í för með sér og slíkt getur haft víðtæk áhrif,“ segir Þórdís Rósa. Þórdís leggur áherslu á að í nútíma heilbrigðiskerfi sé mikilvægt að horfa á þær lausnir sem geti bæði bætt þjónustu, aukið öryggi, lífsgæði og sjálfstæði einstaklinga með langvinna sjúkdóma.

Með því að innleiða fjarheilbrigðisþjónustu geta heilbrigðisstofnanir aukið líkur á því að minnka nærþjónustu og nota tæknilausnir í staðinn. Fjarheilbrigðiskerfið sem um ræðir hér kemur frá norsku heilbrigðistæknifyrirtæki sem heitir Dignio. Um er að ræða heildstætt fjarheilbrigðiskerfi þar sem heilbrigðisstarfsfólk getur sinnt fjareftirliti með sjúklingum með ýmsa langvinna sjúkdóma,” segir Þórdís.

sak.is sagði fyrst frá

Nýjast