Lautin starfrækt í aldarfjórðung.

Svavar Knútur leit við og tók nokkur lög.  Mynd akureyri.is
Svavar Knútur leit við og tók nokkur lög. Mynd akureyri.is

Laut, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, fagnaði á dögunum 25 ára afmæli sínu. Af því tilefni var haldin hátíð með veitingum og gleði.

„Þetta tókst einstaklega vel. Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur kom til okkar, en hann er algjör kærleiksbjörn sem mætir með birtu og hlýju alls staðar sem hann kemur, fyrir utan hvað hann er skemmtilegur,“ segir Sólveig Baldursdóttir, fagmaður í Lautinni.

Í Laut er lögð áhersla á að skapa heimilislegt og afslappað andrúmsloft þar sem gestir koma á eigin forsendum. Opnunartíminn er frá klukkan 9-15 og alltaf er boðið upp á heitan mat í hádeginu. „Yfirleitt eru 10-14 manns í mat hjá okkur daglega. Sumir koma strax á morgnanna og eru hjá okkur lungann úr deginum, aðrir fara heim eftir matinn, en enn aðrir koma eftir hádegi og eru hjá okkur fram að lokun,“ segir Sólveig.

Markmið Lautarinnar er að rjúfa félagslega einangrun, auka lífsgæði þeirra sem glíma við geðræna sjúkdóma og draga úr fordómum í samfélaginu. „Það skiptir óhemju miklu máli að rjúfa einangrun þessa hóps. Að mæta í Lautina hjálpar mörgum að halda rútínu og getur í raun hjálpað mörgum að halda sér á floti – og jafnvel komið í veg fyrir innlagnir. Við reynum að skapa umhverfi sem er byggt á vinskap, trausti, trúnaði og samvinnu og erum með metnaðarfulla stundarskrá,“ segir Sólveig.

Meðal þess sem boðið er upp á í Laut er gönguhópur, slökun og prjónaklúbbur. „Svo höfum við einnig innréttað myndlistarherbergi, sem og aðstöðu þar sem fólk getur lagt sig og slakað á. Þá fáum til okkar fótasérfræðing einstaka sinnum sem hægt er að panta tíma hjá.“

En fyrir hverja er Lautin? „Lautin er fyrir alla. Eina skilyrðið er að fólk sé ekki undir áhrifum. Að öðru leyti eru öll velkomin, sama á hvaða aldri. Við tökum mjög vel á móti öllum. Yfir hátíðarnar verðum við með opið til klukkan 12 á Þorláksmessu og frá 10-14 dagana 29. og 30. desember. Það eru margir sem eru einir yfir jól og áramót og þá er afar mikilvægt fyrir þau að geta leitað til okkar.“

www.akureyri.is sagði fyrst frá.

Nýjast