Mikillar óánægju gætir á meðal forsvarsmanna bílaleiga á Íslandi vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar sem taka eiga gildi um næstu áramót. Að sögn Steingríms Birgissonar verður höggið fyrir Höld-Bílaleigu Akureyrar afar þungt og er fyrirtækið nú þegar farið að búa sig undir álögur upp á nokkur hundruð milljónir sem vel væri hægt að koma í veg fyrir með samtali á milli greinarinnar og ráðherra.
„Hér er verið að þröngva í gegnum þingið þremur frumvörpum sem öll eru gríðarlega íþyngjandi fyrir rekstur bílaleiga á Íslandi. Kílómetragjaldið, hækkun vörugjalda á bifreiðar, auk afnáms virðisaukaskattsívilnunar fyrir bílaleigur.“
,,Samráð yfirvalda við bílaleigur var ekkert"
Áformað er að setja kílómetragjald á alla bíla um áramótin en fram til þessa hefur aðeins verið rukkað kílómetragjald af raf- og tengiltvinnbílum. „Ísland ætlar að verða fyrsta landið í heiminum til að innleiða kílómetragjald af öllum bílum. Það er ástæða fyrir því að ekkert annað land hefur stigið þetta skref, enda er flækjustigið gríðarlegt og fyrirvarinn sem við fáum eru örfáir dagar á meðan raunin er sú að við þyrftum að lágmarki 12 mánuði. Það sem er einna alvarlegast fyrir okkur er að við munum þurfa að innheimta um 1,4 milljarð króna fyrir ríkið á næsta ári. Við áætlum að kostnaður Hölds við slíka innheimtu verði aldrei undir 350 milljónum króna. Er þar um að ræða kortaþóknanir og þá staðreynd að innheimta okkar er aldrei nema í besta falli 90%, auk þeirrar staðreyndar að við erum búin að selja um 120.000 leigudaga inn á næsta ár og við getum ekki bætt þessu gjaldi ofan á leiguna eftir á. Samráð yfirvalda við bílaleigur var ekkert og til að kóróna vitleysuna þá fengum við ekki einu sinni seinkun gjalddaga sem þýðir að við þurfum að greiða ríkinu þessa skatta áður en við náum að innheimta þá af viðskiptavininum" segir Steingrímur.
,,Ferðamönnum mun fækka vegna hærra verðs með tilheyrandi ruðningsáhrifum í ferðaþjónustu"
Áform stjórnvalda um vörugjöld fela í sér 66% hækkun vörugjalds á bifreiðar. Í dag skila þessi gjöld rúmum 10 milljörðum í ríkissjóð, en á næsta ári eiga þau að skila 17,7 milljörðum.
„Þessi hækkun skilar sér væntanlega í 15-25% hækkun á útsöluverði bifreiða. Slík verðhækkun hækkar fjármagnskostnað okkur gríðarlega, skilar sér beint inn í neysluvísitöluna og eykur þar með verðbólgu með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Okkar mat er að þetta muni hafa mjög neikvæðar afleiðingar. Bílaleigur og almenningur eru í óðaönn að kaupa bíla fyrir áramót þannig að þessir fyrirhuguðu 17,7 milljarðar munu aldrei skila sér og í mínum huga mun ríkið ekki einu sinni fá 10 milljarða í gegnum vörugjöldin. Það verður augljóslega samdráttur í bílgreininni á næsta ári, ferðamönnum mun fækka vegna hærra verðs með tilheyrandi ruðningsáhrifum í ferðaþjónustu.“
Um næstu áramót lýkur virðisaukaskattsívilnun til bílaleiga og Steingrímur hefur mikið við þá ákvörðun að athuga. „Í stuttu máli má segja að vsk ívilnun vegna endursölu bílaleigubíla sem hafa ekki verið innskattaðir af neinu eða litlu leiti við kaup er nú afnumin. Það þýðir að frá næstu áramótum verða bílaleigur að skila virðisaukaskatti af heildar söluverði bíla sem þær selja, þrátt fyrir að hafa ekki nýtt sér að neinu eða mjög litlu leyti innskatt af þeim við kaup. Þessi breyting núna um áramótin mun því rýra stórlega verðmæti umhverfisvænna bíla í eigu bílaleiga, umfram rýrnun miðað við almennar reglur virðisaukaskatts. Þetta er ekki einungis ósanngjarnt og óeðlilegt, heldur mun þetta draga verulega úr getu og vilja bílaleiga til að endurnýja þann hluta bílaflotans sem er talinn umhverfisvænn" sagði Steingrímur ennfremur.
,,Okkar bíða erfiðar ákvarðanir"
Hann er ómyrkur í máli og segir sitt fyrirtæki þurfa að fara í erfiðar aðgerðir á næstu vikum: „Að teknu tilliti til þessarar aðfarar ríkisstjórnar að okkar fyrirtæki er ljóst að eitthvað þarf undan að láta. Sem dæmi má nefna að við höfum í gegnum áratugina verið öflugur bakhjarl íþrótta og menningar á Íslandi. Við erum sem dæmi með styrktarsamninga við 110 deildir í íþróttafélaga á Íslandi þar sem við styðjum sérstaklega vel við barna- og unglingastarf á landsbyggðinni. Okkur er nú nauðugur sá kostur að endurskoða þessa samninga, auk þess sem okkar bíða fleiri erfiðar ákvarðanir, allt í boði óbilgjarnra stjórnvalda sem hlusta ekki á nein skynsemisrök.“