Börnin á Gaza eru okkar börn - Ræða flutt á Ráðhústorgi Akureyri s.l. laugardag

Frá fundinum á Ráðhústorgi s.l. laugardag  Mynd MÞÞ og aðsend
Frá fundinum á Ráðhústorgi s.l. laugardag Mynd MÞÞ og aðsend

Kristín S. Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur og ein af stofnendum almannaheillafélagsins Vonarbrúar, tók til máls á útifundinum sem fram fór á Ráðhústorginu á Akureyri s.l. laugardag. Tilgangur félagsins er að koma hjálp beint til ungra fjölskyldna á Gaza en aðdragandann má rekja til þess að alþjóðlegum hjálparstofnunum var vísað út af Gaza og starfsfólk þeirra drepið. Vonarbrú styrkir yfir 70 fjölskyldur eftir þörfum en hefur jafnframt styrkt enn fleiri fjölskyldur með stökum styrkjum.

Nánari upplýsingar um hvernig hægt er að styrkja eða ganga í félagið má finna á heimasíðu Vonarbrúar, www.vonarbru.is

Ræða Kristínar kemur hér í kjölfarið.

Öll mín kæru.

Það var í lok maí í fyrra sem ég sendi fyrstu vinabeiðnina til Gaza.

Það var upphafið sem leiddi síðar til þess að ég stofnaði síðar hjálparsamtökin Vonarbrú ásamt kæru fólki.

Alþjóðlegum hjálparstofnunum hafði verið úthýst og fólk úr þeirra röðum drepið. Þetta voru stórtíðindi og þarna hefði strax átt að grípa til aðgerða.

Ástandið var ólýsanlegt. Unga konan sem ég kynntist, hún Reem Shehada, sem á einmitt 31 árs afmæli í dag, var ein með tvö ung börn og mannsins hennar var saknað.

Hún átti eftir að þurfa að flýja árás skriðdreka, særast á fæti og búa allslaus með börnin í skugganum af tré, þar til við fjölskyldan hjálpuðum henni að kaupa tjald. Því tjöld eru svo sannarlega ekki frí frekar en matur lyf eða nokkur hlutur á Gaza. Með því að loka landamærum hefur Ísrelum tekist það ætlunarverk sitt að auka kvölina, ótakmarkað.

Mánuðum seinna kom maðurinn hennar Reemar í leitirnar. Hann hafði verið tekinn sem gísl. Grindhoraður og áfallastreittur, - það illa útileikinn eftir pyntingar Ísraela að hann þekkti ekki fjölskyldu sína, hvorki Reem né börnin. Hann fékk flogakrampa alla daga, vikum saman, en naut langvarandi sálræns stuðnings héðan, með góðum árangri.

Þrjá aðra gísla höfum við haft í okkar hópi og þeir hafa sömu sögu að segja.

Á þessa gísla, allt niður í börn, minnast þjóðarleiðtogar ekki.

Það á bara að leysa hina gíslana úr haldi, eins og að það muni stöðva morðingjana, sem hafa fyrir löngu forgangsraðað framhaldi þjóðarmorðisns frekar en að fá gísla til baka.

Kristín Bjarnadóttir

Hræsnin blasir við og vestrænir leiðtogar átta sig ekki einu sinni á hvað það kemst, með orðum þeirra, upp um meðvirkni þeirra og þjónkun við Ísraela.

Útlimir og höfuð barna og annarra fá að fjúka með vitund heimsins,

eitt af öðru vegna þungavopna vesturvelda, sem notuð eru til verksins!

Heilu fjölskyldubrennurnar halda viðstöðulaust áfram og aðrar fjölskyldur eru kramdar undir rústum.

Það vantaði ekki að Evrópuþjóðir stykkju til hjálpar þegar tré brunnu í Ísrael. Engri þeirra datt í hug - að setja þau skilyrði fyrir hjálpinni - að Ísraelar stöðvuðu árásir.

Það vantaði heldur ekki að Ísraelar sendu rústabjörgunarveitir og lækna til aðstoðar eftir alvarlegan jarðskjálfta annars staðar í heiminum, þar sem fólk grófst undir rústir. Á sama tíma sprengdu þeir tugi tonna af múrsteinum og steypu yfir fjölskyldur á Gaza. Siðblindan er algjör. Auðvitað verður það þannig þegar heimurinn bugtar sig stöðugt fyrir kúgun Ísraela á nágrönnum sínum í áratugi. Hugmyndafræði síonismans er eitruð, stórhættuleg, - banvæn fyrir heila þjóð og mögulega fleiri þjóðir þar á eftir, ef þjóðarmorðið verður ekki stöðvað.

Ísraelar hafa pyntað saklaust fólk frá fyrsta nóttu með tækjum á lofti, allar nætur, til að halda vöku fyrirfólki. Það er þekkt pyntingaraðferð en nú notuð á börn niður í hvítvoðunga. Ungbörn eru drepin jafnt sem stálpuð, fóstur drepin í móðurkviði. Við hefðum ekki getað ímyndað okkur þessa grimmd.

En nei, þjóðarleiðtogum Vesturvelda finnst þetta ekki nógu slæmt til að beita aðgerðum.

Hefði það sama átt við ef um vestræna þjóð væri að ræða?

Nei. Við vitum betur!

Tvöfalda siðgæðið blasir við. Og tvöfalda siðgæðið blindar.

Þjóðarmorð verður aldrei stöðvað með því að álykta eitt og annað um það. Það varð ljóst á fyrstu vikum og mánuðum að ályktanir myndu ekki duga.

Hvers vegna var ekki þá strax skipt yfir í aðgerðir?

Af hverju að reyna sama meðalið í tvö ár?

En nei, aldrei þótti þjóðarleiðtogum nóg komið til að beita aðgerðum. Og þeim þykir það EKKI ENN, þess vegna erum við saman komin hér í dag.

Nú í tæp tvö ár hef ég veitt sálgæslu til ungs fólks á Gaza hvern einasta dag, meiri hluti þeirra er fæddur á árunum í kringum 1990.

Ég þekki býsna vel til; hver óttinn er og áhyggjurnar, - að missa barnið eða börnin sín, - eða að vera drepin frá barni eða börnum sínum. Áföllin, sorgin, óttinn við nútíð og framtíð, sorg og aftur sorg og söknuður. Hungur, sjúkdómar, miklar tannskemmdir, líka hjá börnum. Hvernig sprengjurnar hafa áhrif í fleiri hundruð metra frá árásarstaðnum. Hvernig sprengjuflísar skjótast inn í gegnum lítið gat sem þær mynda í gegnum húð og vöðva og splundrast þar inni og valda innvortis blæðingum með gríðarlegum sársauka. Ég þekki til staðsetninga sjúkrahúsa og veit hvað tjöld, matur og bleiur kosta. Og hvers vegna hjálpar ekki umheimurinn við að stöðva morðingjana af?

Fólki hér heima er tíðrætt um að við sjáum þjóðarmorð nú í fyrsta skipti í beinni útsendingu. En ekki átta öll sig á því að fólkið okkar á Gaza er líka að horfa á heiminn í beinni útsendingu á meðan!

Aðgerðarleysið kvelur þau meira en þið getið ímyndað ykkur.

Þau þekkja nágranna sína vel af ofbeldi í sinn garð en áfallið var hörmulegt þegar þau áttuðu sig á að heimurinn teldi sig ekki þess megnugan að stöðva þessa smáþjóð, sem níðist á þeim með aðstoð fleiri Vesturvelda.

Við hjá Vonarbrú eigum fjögur afmælisbörn á Gaza í dag.

Þau systkinin Reem Sheahda sem ég nefndi hér í upphafi er 31 árs og Imad bróðir hennar 36 ára. Ísraelsher hefur drepið eitt barna hans, Hebu, sem var ungbarn. Nafn hennar var lesið upp ásamt nöfnum annarra barna sem drepin hafa verið frá því í október 2023.

Svo er það Hala sem er 9 ára í dag og lítill patti hann Amir, sem er 4 ára.

Öll eru þau að eiga sitt annað afmæli í þjóðarmorði og örvæntingin er algjör, jafnt meðal þeirra sem annarra. Ég ber ykkur kveðjur þeirra og skila því sérstaklega frá Zaki Ba, pabba Amirs að hann þarf nauðsynlega að komast yfir landamærin til að fá gerviauga í tóma augntóft eftir að hann missti augað í fyrra. Það á við um fleiri úr Vonarbrúar hópnum. Ung móðir og kær vinkona, Toleen, fékk slæmt upphandleggsbrot og taugaskaða við sprengjuárás þar sem hún sat og gaf syni sínum brjóst. Beinin ná ekki að gróa saman og hún þarf að komast út til aðgerðar. Abdul, 18 ára fyrrum fótboltastrákur, þarf að komast út í aðgerð svo hann geti fegnið gervifót, eftir að hafa misst fótinn fyrir neðan hné. Svo höfum við hann Zain litla 8 ára með hryggrauf sem hrakar í þessu ástandi og þarf að komast út til meðferðar. Einnig Adam, ungur drengur sem liggur særður á sjúkrahúsi en hann og pabbi hans urðu fyrir árás þegar þeir fóru í klippingu fyrir tæpum mánuði. Pabbi hans var drepinn frá fjórum ungum börnum.

Hvernig í ósköpunum má það vera að mannkynið bregðist svona á okkar vakt?

Glæpir gegn mannkyni eru það sem þeir eru, glæpir gegn öllu mannkyni.

Látum ekki tvöfalda siðgæðið blinda okkur sýn. Stöndum með þolendum þjóðarmorðs.

Þjóðarleiðtogar Vesturvelda verða nú að taka sig saman um aðgerðir til að þröngva Ísraelum til að stöðva þjóðarmorðið. Það vantar leiðtoga í Evrópu sem hefst handa og fær aðra þjóðarleiðtoga með. Þetta verður að gerast.

Það verður líka að hleypa hundruðum tonna af neyðarhjálp inn og það þarf augljóslega alþjóðlegt friðargæslulið.

Börnin á Gaza eru okkar börn.

Stöðvum þetta þjóðarmorð!

Nýjast