Á vakt um jólin

Kristjana Freydís Stefánsdóttir, nemi í HA og lögreglumaður á Akureyri
Kristjana Freydís Stefánsdóttir, nemi í HA og lögreglumaður á Akureyri

Fyrir marga snúast jólin um að vera með fjölskyldu, borða góðan mat og opna pakka en jólin eru þó ekki eins hjá öllum. Kristjana Freydís Stefánsdóttir, nemi í HA og lögreglumaður á Akureyri, var einmitt með öðruvísi jól í fyrra en þá var hún á kvöldvakt hjá Lögreglunni á Akureyri og ætlar að endurtaka leikinn í ár.

Kristjana byrjar að tala um að fyrir norðan sé hægt að velja um vaktir yfir hátíðirnar og þá sé hægt að biðja um að vinna á aðfangadag eða annan hátíðardag í kringum jólin. Kristjana segir að það hafi verið hennar val að taka vakt á aðfangadag í fyrra og svo aftur í ár.

Get allt eins verið að vinna

„Eins og í fyrra og í ár valdi ég mér aðfangadag og sem sagt að vinna fram yfir kvöldmat á aðfangadag. Ég bý ein, á hvorki börn né maka. Mér finnst miklu mikilvægara að leyfa þeim sem eiga fjölskyldu og börn að vera heima með krökkunum sínum, með fjölskyldu sinni yfir þessa hátíð. Á meðan get ég allt eins verið að vinna,“ segir Kristjana.

Kristjana segir að ein aðalástæðan fyrir að taka það á sig að vera á vakt á aðfangadag sé að annað fólk, sem hún vinnur með, nái að njóta jólanna með sínu fólki. Fjölskylda Kristjönu býr í Aðaldal og segir hún að þar sem hún sé ekki með sína fjölskyldu á sama svæði og hún sjálf, geti hún allt eins verið í vinnunni. Kristjana segir einnig að ef aðstæður og tími leyfi, geti fólk sem hún er með á vakt og eigi fjölskyldu á Akureyri farið heim í örstutta stund til að kyssa fólkið sitt og óska gleðilegra jóla.

Hefur sína kosti og galla

Margt gott getur komið út úr því að vinna á aðfangadag. Það getur á hinn bóginn verið mjög erfitt að fá ekki að halda upp á hefðbundinn aðfangadag eins og meirihlutinn af þjóðinni gerir með fjölskyldu sinni. Kristjana segir einmitt það vera eitt það erfiðasta við að vinna yfir jólin, að vera ekki með fjölskyldunni.

„Ég man í fyrra þegar ég sat uppi á stöð. Einhverjir voru farnir heim en við vorum nokkur eftir á stöðinni. Þá hringdi ég í mömmu og pabba á facetime, sat með þeim þegar klukkan varð sex og kyssti alla í gegnum facetime meðan þau sátu við borðið að fara að fá sér að borða. Þetta finnst mér það erfiðasta, að vera ekki heima með fjölskyldunni. Ég keyri samt beint heim eftir vakt. Í fyrra biðu þau með að opna pakkana þar til ég kom,“ segir Kristjana.

Þrátt fyrir að geta ekki verið með fjölskyldu sinni um jólin, segir Kristjana að fólkið sem er með henni í vinnunni sé bara ein lítil fjölskylda og að þau reyni að gera það besta úr þessum degi. Persónulega segir Kristjana að stærsti kosturinn við þetta sé að hún hafi virkilega fundið sig í þessu starfi.

„Þetta er bara það skemmtilegasta sem ég geri. Ég hef virkilega fundið mig í þessu starfi og þetta er einhvern veginn engu líkt. Þetta er fjölbreytt starf og mér finnst svo skemmtilegt þegar það koma einhver útköll um jólin eða maður hittir fólk, þá eru einhvern veginn allir í jólaskapi. Vissulega eru einhverjir stressaðir og einhverjir svona: Æi, af hverju ertu að stoppa mig?“ en það eru flestir smitaðir af jólagleði yfir öllu. Það finnst mér mjög skemmtilegt,“ segir Kristjana.

Hvernig getum við haft jólin örugg?

Kristjana segir að eitt það mikilvægasta sem við þurfum að passa okkur á sé að láta ekki jólastressið taka yfir okkur; reyna að taka því rólega og hægja á okkur.

„Ég veit að þetta er hátíð en við viljum öll koma örugg heim. Málið er bara að anda inn og anda út. Þó að kartöflurnar brenni í ofnunum er heimurinn ekki að farast. Þótt þú sért að verða of seinn í matinn, ekki keyra á 120 kílómetra hraða og enda út af þannig þú komist aldrei í matinn. Svona heilt yfir; hægjum bara á okkur! Verum örugg yfir hátíðirnar og látum ekki jólastressið taka yfir,“ segir Kristjana.

Myndi fara heim til að njóta

Þegar spurt var hvernig jólin myndu vera hjá Kristjönu ef hún væri ekki á vakt, svarar hún að hún myndi nýta tækifærið til að vera í faðmi fjölskyldunnar.  „Þá myndi ég bara keyra beint eftir vakt upp í sveit, gista hjá mömmu og pabba og systkinum mínum þar. Svo myndi ég njóta þess að vera með þeim. Ég er að vinna mjög mikið og er í skóla. Ég myndi því nýta tækifærið, fara heim til að njóta, spila tölvuleiki og ýmis spil, horfa á jólamyndir, borða „kósý“, kökur og allt þetta klassíska,“ segir Kristjana.

Kristófer Páll Sigurðsson/KPS

Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum,

samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.

Nýjast