Björgunarsveitin Súlur er tilbúin allan ársins hring

Skúli Rúnar við vettvangsstjórnunarbílinn.
Skúli Rúnar við vettvangsstjórnunarbílinn.

Jólin og áramótin hafa eflaust verið annasöm hjá Björgunarsveitinni Súlum í flugeldasölu en sveitin er mjög skipulögð allan ársins hring.

Í 73 ár hefur Björgunarsveitin Súlur á Akureyri verið einn af hornsteinum öryggis á Norðurlandi. Sagan hófst árið 1952 með stofnun Flugbjörgunarsveitarinnar eftir að flugvélin Geysir nauðlenti á Vatnajökli árið 1950. Um hörmulegt slys var að ræða sem varð kveikjan að skipulögðu flugleitarstarfi á Íslandi. Á sjötta áratugnum bættist Hjálparsveitin við og árið 1995 var Sjóbjörgunarflokkurinn stofnaður. Árið 1999 voru þessir þrír armar sameinaðir undir nafninu Súlur; nafni sem sótti innblástur í tignarlega tindinn sem gnæfir yfir Eyjafirðinum. Í dag eru um 150 virkir, útkallshæfir félagar í sveitinni, auk hóps „gamlingja“ sem halda áfram að mæta í „Old Boys“ kaffiboðin sín með vöfflum og góðum sögum.

 

Skúli Rúnar hefur starfað í 53 ár

Einn þeirra sem best þekkir þessa sögu er Skúli Rúnar Árnason, Akureyringur frá fyrsta degi. „Ég byrjaði veturinn 1972-73 í Flugbjörgunarsveitinni og hef verið með upp frá því,“ segir hann og brosir. 53 árum síðar er hann enn jafn ástríðufullur og áður, þótt hann hafi smátt og smátt færst yfir í hlutverk hins reynslumikla ráðgjafa.

Skúli er lærður smiður, starfaði lengi sem stöðvarstjóri hjá Pósti og síma og hefur verið í öllum flokkum sveitarinnar í gegnum tíðina. En hjartað sló alltaf hraðast fyrir fjallaleiðöngrum. „Ég er mikill útilífsmaður bæði sumar og vetur, hef gengið flest fjöll hérna norðanlands og víðar. Fjallaflokkurinn var minn flokkur,“ segir hann stoltur.

Tæknin orðin betri í dag en áður fyrr

Í gegnum áratugina hefur starfið breyst gríðarlega. „Áður fyrr voru útköllin mest á haustin vegna rjúpnaveiða og týndra manna sem rötuðu ekki heim. Núna er þetta jafnt yfir árið,“ segir Skúli. Sumarið er orðið hvað „brattast“ vegna aukins ferðamannastraums og hálendisgæslu, en veturinn lætur ekki sitt eftir liggja.

„Tæknin hefur breytt öllu. GPS, betri veðurspár og öflugri búnaður hafa bjargað ótal mannslífum. Við erum líka orðin mun fljótari að bregðast við því kerfið er orðið mjög öflugt.“

Súlur Björgunarsveit er vel tækjum búin.

Súlur kringum jól og áramót

Þegar jólin nálgast fer annar hluti af starfi Súlna í hágír. Í byrjun desember koma gámar með flugeldum. „Þá fer hellingur af fólki í að raða upp, setja upp borð, rýma og undirbúa sölu. Þetta er rosaleg vinna en líka mjög skemmtilegt,“ segir Skúli og hlær. Á gamlársdag stendur sveitin svo fyrir stórkostlegri flugeldasýningu kl. 21 þegar kveikt er í áramótabrennunni sem er uppistaðan í hátíðarhöldunum á Akureyri á meðan bæjarfélagið sér um áramótabrennuna sjálfa.

Góður boðskapur fyrir alla

En þrátt fyrir alla gleðina er Skúli með einn mikilvægan boðskap sem gildir um jólin og raunar allan ársins hring: „Fylgist vel með veðurspánni! Hún er mjög áreiðanleg næsta sólarhringinn, jafnvel tvo. Hvort sem þú ert að fara á fjöll, á rjúpnaveiðar eða bara að keyra milli landshluta, kíktu alltaf á veðrið, klæddu þig vel og hafðu nesti og hlý föt meðferðis. Það geta orðið 2ja–3ja tíma bið á leiðinni ef illviðri skellur á, og þá er gott að vera vel búinn.“

Eftir meira en hálfa öld í björgunarstarfi er Skúli enn jafn áhugasamur. „Ég hef alltaf jafn gaman af þessu,“ segir hann af einlægni. „Það er ótrúlegt að fá að vera hluti af svona frábærum hópi sem leggur hjarta sitt í að hjálpa öðrum.“

Á aðventunni, þegar við tendrum kertin og búum okkur undir hátíðirnar, er gott að staldra við og hugsa til allra þeirra sem standa vaktina úti í kuldanum – fólksins í rauðum jökkum sem gerir jólin örlítið öruggari fyrir okkur öll. Skúli Rúnar og liðsmenn hans í Súlum eru lifandi sönnun þess að sannur jólaandi snýst ekki aðeins um gjafir og veislur, heldur um að vera til staðar fyrir náungann, hvenær sem er og hvar sem er.

Þakka þér kærlega fyrir þjónustuna, Skúli – og til hamingju með 53 árin!

 

Sonja Lind Guðmundsdóttir/SLG

Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, s

amkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.

Nýjast