10 september alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga.

Sr. Hildur Eir Bolladóttir skrifar
Sr. Hildur Eir Bolladóttir skrifar

Í dag 10.september er alþjóðlegur forvarnadagur sjálfsvíga. Fólk hefur dáið úr sjálfsvígum frá morgni tímans og sú dánarorsök mun alltaf verða partur af mannlífinu ja rétt eins og krabbamein.

Í raun má færa fyrir því heimspekileg rök að rétturinn til að taka sitt eigið líf sé sjálfsagður og mín afstaða er sú að það megi vera möguleiki án þess að við dæmum hvert annað. Sjálfsvíg eru hins vegar óendanleg sár og flókin sorg fyrir eftirlifendur að takast á við, um það verður ekki deilt og missirinn oftar en ekki fullkomlega ótímabær. En ég veit líka að fólk tekur ekki líf sitt af skorti á ást til ástvina sinna heldur angist sem lokar öllum leiðum til lífs og möguleika á lausnum. Fólk vill ekki særa en það finnur bara ekki leiðina til að lifa.

Það sem við getum gert er að finna sameiginlegar leiðir sem samfélag til að tala um sjálfsvíg sem nokkuð er fólk má orða upphátt sem möguleika án þess að það sé talin eigingjörn og galin hótun og aldrei hægt að treysta manneskjunni framar til að taka ábyrgð á lífi sínu.  Að við megum segja ,,ég hef hugleitt að taka líf mitt" án þess að verða kippt út úr eigin sjálfsstjórn og reisn.

Konur fara í brjósta og leghálsskoðun sem er augljóslega mjög nærgöngul rannsókn, karlar fara í blöðruhálsskoðun sem er ekki minna inngrip og eins mættum við segja upphátt,  ,,ég vil ekki deyja en mér finnst erfitt að lifa, hvað get ég gert?"

Það væri sannarlega reynandi að mínu mati.

Sr. Hildur  Eir  Bolladóttir skrifar þennan pistil á Facebokkvegg sinn og gaf góðfúslegt leyfi sitt fyrir birtingu  á vef Vikublaðsins.

Nýjast