Grýtubakkahreppur Björn Ingólfsson lætur af störfum

Á Grenivíkurgleði á dögunum þegar samkoma var við Útgerðarminjasafnið og Gömlu bryggju, afhenti Gísl…
Á Grenivíkurgleði á dögunum þegar samkoma var við Útgerðarminjasafnið og Gömlu bryggju, afhenti Gísli Gunnar oddviti Birni smá þakklætisvott frá sveitarfélaginu. Jafnframt er honum óskað góðrar heilsu og starfsorku áfram, því víst er að hann á ýmislegt ógert enn. Björn er þessi unglegi lengst til hægri, þá Þröstur Friðfinnsson og Gísli Gunnar. Mynd grenivik.is

Björn Ingólfsson lét af launuðum störfum hjá Grýtubakkahreppi 1. ágúst síðastliðinn. Björn hefur verið bókavörður frá 1984, framan af með störfum sínum sem skólastjóri Grenivíkurskóla. Björn hóf störf fyrir hreppinn sem kennari 1963 til 1964 og frá árinu 1968 hefur hann verið samfellt í starfi hjá Grýtubakkahreppi. „Þetta er ansi langur starfsferill og jafnframt farsæll,“ segir á vefsíðu hreppsins.

Björn er ekki þekktur fyrir að gera kröfur um laun fyrir öll sín viðvik, áfram sinnir hann m.a. stjórnarstörfum og fleiru fyrir Útgerðarminjasafnið á Grenivík en það eru ólaunuð störf. „Sveitarfélagið stendur í mikilli þakkarskuld við Björn fyrir allt hans óeigingjarna starf á mörgum sviðum, ekki síst hans grúsk og ritstörf til að varðveita sögu samfélagsins.“

Nýr bókavörður er Inga María Sigurbjörnsdóttir kennari. Verður bókavarðarstarfið hluti af hennar starfi í Grenivíkurskóla, en safnið er einnig skólabókasafn.

Nýjast