BSO áskilur sér rétt til að koma að mótmælum vegna úthlutunar lóðar við Hofsbót

BSO vill að viðurkennt verði að stöðin eigi lóðaréttindi að ríflega þúsund fermetra lóð
þar sem stö…
BSO vill að viðurkennt verði að stöðin eigi lóðaréttindi að ríflega þúsund fermetra lóð þar sem stöðin hefur verið starfrækt frá árinu 1955. Lóðinni hefur verið úthlutað fyrir nýbyggingu og þarf Bifreiðastöðin að flytja sína starfsemi upp úr miðjum febrúar á næsta ári. Mynd Margrét Þóra

„Allur réttur er áskilinn til að koma að formlegum mótmælum ásamt viðeigandi röksemdum varðandi úthlutun svæðisins sem sveitarfélagið hefur skilgreint sem lóðirnar Hofsbót 1 og 3, en úthlutunin var ekki staðfest af bæjarráði fyrr en á sama fundi og erindi umbjóðenda minna var tekið fyrir,“ segir í bréfi Sunnu Axelsdóttur lögmanns sem hún sendi bæjarráði fyrir hönd Bifreiðastöðvar Oddeyrar.

Lóðinni við Hofsbót 1 og 3 hefur verið úthlutað til fyrirtækisins SS-Byggis sem átti hærra boð af tveimur sem bárust þegar lóðin var boðin út öðru sinni fyrr á árinu. Bæjarráð samþykkti tilboðið á fundi í ágúst. BSO hefur 6 mánuði frá því tilboði var tekið til að færa sína starfsemi annað og verður sá tími liðinn upp úr miðjum febrúar á næsta ári.

Viðurkennt verði að BSO eigi lóðaréttindi

BSO rekur mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra þar sem þess er krafist að með dómi verði viðurkennt að BSO eigi ótímabundin og óuppsegjanleg lóðréttindi á ríflega eitt þúsund fermetra lóð við Strandgötu. Sú lóð hafði verið afmörkuð af Akureyrarbæ þegar samningur um leigu stöðvarinnar á lóðinni var gerður árið 1955.

Lögmaður BSO sendi erindi til bæjarráðs vegna afgreiðslu þess á málinu í lok ágúst síðastliðins. Afgreiðslan var þess efnis að bæjarráð gæti ekki orðið við erindinu eins og það er orðað í bókun

„Vegna afgreiðslunnar er tekið fram að erindið var ætlað sem samantekt stöðu aðila í málinu og varðaði málið í heild sinni. Líta má á erindið sem tillögu að fundi um málið, en ekki var brugðist við því samkvæmt fundargerð,“ segir í erindi lögmanns BSO.

Nýjast