„Ég á frændfólk og vini á Akureyri og hlakka því alltaf til að halda í höfuðstað Norðurlands, borgina góðu norðan heiða sem við þurfum að efla og styrkja enn frekar svo að skynsamlegt jafnvægi í byggð haldist nú eitthvað í landinu. Þá skiptir öflugt háskólasamfélag miklu máli,“ svarar Guðni aðspurður um heimsókn hans norður yfir heiðar.
Guðni verður á Akureyri í næstu viku og mun í ferðinni heimsækja Háskólann á Akureyri. Hann býður, í samvinnu við starfsfólk HA, öllum á Akureyri og nærsveitum að koma á Lögfræðitorg miðvikudaginn 5. nóvember. Torgið ber yfirskriftina, „Lögfræðitorg - Af hverju er ekki lengur hægt að breyta stjórnarskrá lýðveldisins?“
Okkur lék forvitni á að vita hver væri kveikjan hjá honum að vilja ræða þessi mál sérstaklega. „Að sjálfsögðu er dálítill stríðnistónn í yfirskrift erindisins því að það er áfram hægt að breyta stjórnarskránni. Það hefur hins vegar gengið illa síðustu ár, þrátt fyrir skýran vilja allt frá aldamótum. Ég hef lengi haft áhuga á sögu íslensku stjórnarskrárinnar, fyrst sem sagnfræðingur og að sjálfsögðu einnig í embætti forseta.“ segir Guðni og bætir við að þeir sem sömdu og samþykktu lýðveldisstjórnarskrána á sínum tíma sáu fyrir sér að hún yrði tekin sem fyrst til gagngerðrar endurskoðunar.
„Þá má samt sjá að þótt mörgu hafi verið breytt í tímans rás er enn verk að vinna en það er eins og það verði sífellt snúnara í hugum margra að breyta stjórnarskránni, hverju sem um er að kenna,“ segir hann einnig og gefur í skyn að hann muni jafnvel segja sína skoðun á málefninu á Lögfræðitorginu.
Fræðin náttúrulegt umhverfiÞá mun Guðni mæta í tíma hjá stúdentum í Lagadeild og mun einkum fjalla um þjóðhöfðingjakaflann í stjórnarskránni og mögulegar eða æskilegar breytingar þar. Guðni segist hlakka til að ræða stjórnskipun Íslands, stjórnarskrá landsins og skyld málefni við lagastúdenta í HA og önnur sem hafa áhuga á þessum grunnþáttum.
„Þar að auki er gaman að hitta starfsfólk háskólans, gamla kunningja og reyna að láta gott af sér leiða í heimi fræðanna núna þegar maður er aftur kominn á þann vettvang, í sitt náttúrulega umhverfi eins og sumir vinir mínir segja.“
Hér er hægt að finna allar upplýsingar um Lögfræðitorgið sem er 5. nóvember klukkan 12:30