Bæjarráð Akureyrar fagnar því að þingsályktunartillaga um borgarstefnu hafi verið samþykkt og leggur áherslu á að sveitarfélagið sé reiðubúið að taka virkan þátt í vinnu við gerð aðgerðaáætlunar. Akureyri er nú skilgreind sem svæðisborg eftir samþykkt á Alþingi. Með borgarstefnu er stuðlað að þróun og eflingu tveggja borgarsvæða á Íslandi.
Svæðisborg er þéttbýlisstaður með sjálfbæra atvinnustarfsemi og þjónustu á flestum sviðum daglegs lífs þar sem almenningur hefur tækifæri til að njóta fjölbreyttrar menntunar, menningar og mannlífs og greiðra samgangna milli landshluta og til útlanda.
Í þingsályktunartillögunni er borgarsvæði Akureyrar skilgreint sem Eyjafjörður frá Siglufirði í vestri og austur til Húsavíkur og Mývatnssveitar. Þetta kemur fram á vefsíðu Akureyrarbæjar.
Eitt búsetu- og þjónustusvæði
Efla á svæðisborgina Akureyri sem drifkraft í þjónustu og menningarlífi íbúa og nærliggjandi byggða og sérstaða svæðisins nýtt í því skyni. Samhliða mótun hlutverks Akureyrar sem svæðisborgar verði borgarsvæði hennar þróað og unnið að eflingu þess og stækkun í samstarfi ríkis og hlutaðeigandi sveitarfélaga. Afraksturinn verði stærra og öflugra atvinnusvæði, sem verði jafnframt eitt búsetu- og þjónustusvæði.
Aukið námsframboð á háskólastigi
Í þingsályktunartillögunni er m.a. nefnt að til þess að markmiðin nái fram að ganga þurfi að auka námsframboð á háskólastigi á Akureyri, efla samstarf háskólans og Sjúkrahússins á Akureyri, veita auknu fjármagni til stofnana á sviði menningarmála og renna styrkari stoðum undir millilandaflugið. Þetta verði til að bæta búsetuskilyrði á svæðinu og efla borgarhlutverk Akureyrar.
Jafnframt er bent á mikilvægi þess að tryggja framboð raforku og afhendingaröryggi svo að það standi vexti borgarsvæðisins ekki fyrir þrifum. Þá séu öryggismál og löggæsla grundvallarinnviðir og ein af forsendum þess að blómlegt borgarsamfélag geti þróast á svæðinu.