„Er ekki eðlilegt, að eftir 100 ár sé skólinn friðaður?“

Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistari      Mynd  Rakel Hinriksdóttir
Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistari Mynd Rakel Hinriksdóttir

Um það bil 1000 manns komu saman á Laugum 25. október til þess að fagna 100 ára afmæli Laugaskóla. Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistari var hrærður eftir hátíðardagskrána, sem var vel skipulögð og mjög svo í anda Laugamanna. Nóg sungið og slegið á létta strengi, gengið um hallir minninganna saman og góðum degi lokið með Sæmundi í sparifötunum og mjólkurglasi í matsalnum.

„Ég er ofboðslega þakklátur og hrærður, í raun og veru. Þetta tókst bara miklu betur en við reiknuðum með! Við höfðum áhyggjur af því að rúmlega tveggja tíma dagskrá í íþróttahúsinu yrði kannski þung og þreytandi, en Höskuldur veislustjóri hélt vel utan um stundina og fjöldasöngurinn með Þráni Árna hélt þessu léttu og skemmtilegu. Svo voru fleiri tónlistaratriði og ég held að þetta hafi bara verið mjög ánægjuleg menningarstund,“ segir Sigurbjörn Árni.

Ráðherrarnir mættu
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra og Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra mættu báðir á hátíðina og sögðu nokkur orð. Báðir minntust á sérstöðu skólans og hversu einstakur hann er í menntasögu landsins. „Ég var mjög glaður að þeir mættu, og þeir gáfu sér tíma til þess að staldra vel við og ræða við okkur í leiðinni,“ segir Sigurbjörn Árni. „Nú eru breytingar í farvatninu í framhaldsskólum landsins, þar sem Guðmundur Ingi hefur boðað stofnun svæðisskrifstofa sem eiga að taka við rekstri ríkisrekinna framhaldsskóla, og enn og aftur finnst okkur steðja hætta að skólanum. Við viljum halda okkar sjálfstæði, en við erum svosem ekki eini skólinn sem hefur áhyggjur af þessu.“

Það er engin nýlunda, að Laugaskóli takist á við breytingar. Saga Laugaskóla er í raun saga mikillar seiglu og framsýni, en skólinn hefur mætt þeim ófáum á 100 árum og staðið af sér ýmis óveður í tengslum við breytingar á stjórnsýslu og hagræðingarhugmyndir. Vel er farið ofan í saumana á þessari sögu í nýrri heimildarmynd Ottós Gunnarssonar, Voru allir hér?, sem var sýnd í Þróttó á hátíðinni. Sigurbjörn Árni hélt sjálfur erindi á hátíðinni þar sem hann benti ráðherrum og gestum hátíðarinnar góðfúslega á, að nú væri skólinn 100 ára og því eðlilegt að hann teldist friðaður. Hann uppskar hlátur, en þó mátti merkja að flestum viðstöddum þótti þetta ekki vitlaus hugmynd.

Velunnarar skólans eru fjölmargir
„Við erum því miður aldrei komin fyrir vind. Og höfum ansi oft verið nálægt því að vera lokað,“ segir Sigurbjörn Árni en hann bendir á að húsakosturinn sé dýr í rekstri fyrir ríkið og því verði skólinn sennilega alltaf reglulega undir smásjá hagræðingar. „En á meðan fólk vill koma hingað og læra, sem hefur verið raunin - en færri hafa komist að en vilja meira að segja - þá finnst mér að við ættum að fá að halda áfram okkar starfi.“

Eftir hátíðina um helgina, þá er það morgunljóst að skólinn er rótgróinn af mikilli hlýju í hjörtum margra. „Það fer ekki á milli mála! Við munum aldeilis ekki standa ein í þeirri baráttu, ef einhverjum dettur í hug að reyna að loka Laugaskóla,“ segir skólameistarinn og fyrrum nemandinn að lokum.

www.thingeyjarsveit.is/Rakel Hinriksdóttir

Nýjast