Um 450 manns tóku þátt í útifundi með yfirskriftinni Þjóð gegn þjóðarmorði sem haldinn var á Ráðhústorgi á Akureyri um liðna helgi. Slíkir fundir voru haldnir samtímis á 6 stöðum á landinu.
Á fundinum fluttu ávörp þau Hildur Eir Bolladóttir sóknarprestur, Katla Óska Káradóttir fulltrúi Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri, Guðjón Hreinn Hauksson formaður Félags framhaldsskólakennara sem og Kristín S. Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur og einn stofnenda Vonarbrúar. Edda Björgvinsdóttir leikkona og Hlynur Hallsson lásu bréf frá Gaza. Ösp Kristjánsdóttir og Svavar Knútur voru með tónlistaratriði.
,,Í nær tvö ár hefur heimsbyggðin fylgst með sífellt versnandi og óbærilegum þjáningum almennra borgara í Palestínu með hryllingi. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir fimmta og þar með efsta stigi hungursneyðar. Hún er alfarið manngerð af völdum Ísrael sem hefur lagt ræktanlegt landsvæði í rúst á Gaza og lokað fyrir að matvæli berist til íbúa. Samkvæmt gögnum ísraelska hersins eru 83% þeirra sem Ísrael hefur myrt almennir borgarar. Þar af eru a.m.k. 18.500 börn eða um 28 börn á hverjum einasta degi, álíka mörg og heill bekkur í grunnskóla á hverjum degi.
Þjóðarmorð stendur yfir af hálfu Ísraelsríkis gagnvart palestínsku þjóðinni. Stríðsglæpi Ísraels verður að stöðva,“ segir í yfirlýsingu.