Listasafnið á Akureyri: Allt til enda listvinnustofur um helgina og í október og nóvember

Framundan í september, október og nóvember eru þrjár ólíkar listvinnustofur í Listasafninu á Akureyri. Þar verður börnum á grunnskólaaldri boðið að vinna verk undir leiðsögn kraftmikils listafólks án endurgjalds, en skráning er nauðsynleg. Opið er fyrir skráningu í fyrstu listvinnustofuna sem fer fram um næstkomandi helgi, dagana 13. -14. september. Þá mun myndlistarkonan Sigga Björg bjóða börnum í 1.- 4. bekk í teiknivinnustofu þar sem búnar verða til nýjar skepnur sem ekki hafa áður sést í heiminum. Þær verða samsettar úr þekktum dýra- eða skordýrategundum og þeim gefin nöfn og sérstakir eiginleikar. Teikningar af nýju skepnunum verða unnar í raunstærð þar sem engar hömlur verða settar á stærð þeirra, svo lengi sem þær rúmast í húsakynnum safnsins.

Vinnustofunni lýkur með sýningu í Listasafninu, sem þátttakendur skipuleggja sjálfir. Þar verður áhorfendum boðið að ganga inn í skepnugarð og kynnast þessum nýju skepnum sem enginn hefur áður séð, en heiminn sárvantar. Sýningin mun standa til 5. október næstkomandi.


Nánar um Allt til enda á www.listak.is og hjá Heiðu Björk Vilhjálmsdóttur á netfangið heida@listak.is.


Skepnugarðurinn
Listvinnustofa með Siggu Björgu

Aldur: 1.-4. bekkur.
Tímasetning: 13.-14. september kl. 11-13 báða dagana.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 10 börn.
Þátttökugjald: Ekkert, en skráning nauðsynleg.
Skráning: Tekið er á móti skráningum á netfangið heida@listak.is.

Sigga Björg


Gjörningur!

Listvinnustofa með Erni Alexander Ámundasyni


Önnur vinnustofa í verkefninu Allt til enda fer fram dagana 11. og 12. október 2025. Þá mun Örn Alexander Ámundason, myndlistarmaður, bjóða börnum í 7.-10. bekk að skoða sögu gjörningalistar og gera spennandi tilraunir með miðilinn. Þátttakendur munu öðlast góðan skilning á listforminu, fremja gjörning og búa til eigin gjörningadagskrá sem verður hluti af A! Gjörningarhátíð. Að lokinni vinnustofu verður sett upp sýning á ferli og afrakstri verkefnisins. Sýningin stendur til 2. nóvember.

Örn kláraði MFA gráðu í Myndlist frá Listaháskólanum í Malmö og BFA gráðu frá sama skóla. Hann hlaut hin virtu Edstandska Stiftelsen verðlaunin í Svíþjóð 2013. Verk hans hafa verið sýnd víða, bæði á Íslandi og erlendis. Örn er einn af stofnendum listamannarekna sýningarrýmisins Open í Reykjavík og rak hið skammlífa Parent í Malmö í Svíþjóð.


Aldur:
7.-10. bekkur.
Tímasetning: 11.-12. október kl. 11-14 báða dagana.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 10 börn.
Þátttökugjald: Ekkert, en skráning nauðsynleg.
Skráning: Tekið er á móti skráningum frá 1. október á netfangið heida@listak.is.

Örn Alexander Ámundason

Lifandi textíll
Listvinnustofa með Ýrúrarí

Síðasta vinnustofa verkefnisins Allt til enda fer fram dagana 8. og 9. nóvember. Þá mun Ýrúrarí, listakona og hönnuður, bjóða börnum í 3.-6. bekk að skoða ólíkar leiðir til að glæða nýju lífi í textílefni og flíkur sem fólk er hætt að nota. Ýrúrarí vinnur gjarnan með notaðar peysur í textílverkum sínum, peysur sem áður hefðu endað í textílendurvinnslu fá þar nýtt líf og persónuleika. Grunnur vinnustofunnar byggir á handverksaðferðum sem skapa rými fyrir sköpun og tjáningu með textíl. Hvernig er hægt að breyta gömlum og ónýtum textíl í áhugavert og persónulegt listaverk? Vinnustofunni lýkur með sýningu í Listasafninu á Akureyri sem þátttakendur skipuleggja sjálfir. Sýningin stendur til 7. desember.

Ýr Jóhannsdóttir lærði textílhönnun í Myndlistaskólanum í Reykjavík og Glasgow School of Art og kláraði meistaranám í listkennslu við Listaháskóla Íslands haustið 2021. Ýr vinnur að mestu undir nafni Ýrúrarí þar sem hversdagurinn, endurvinnsla og húmor mætast í persónugerðum peysum. Verk Ýrar finnast í ýmsum safneignum og hafa verið sýnd víða um heim. Einnig hafa skapandi fataviðgerðar-smiðjur hennar vakið mikla lukku.


Aldur:
3.-6. bekkur.
Tímasetning: 8.- 9. nóvember kl. 11-14 báða dagana.
Staðsetning: Safnfræðslurými Listasafnsins á Akureyri.
Þátttakendur: 10 börn.
Þátttökugjald: Ekkert en skráning nauðsynleg.
Skráning: Tekið er á móti skráningum frá 29. október á netfangið heida@listak.is.

Ýrúrar

Nýjast