Verkefnið “Karlar til ábyrgðar” kynnt í Háskólanum á Akureyri

Forsvarsmenn verkefnisins Karlar til ábyrgðar munu kynna verkefnið á morgun, miðvikudaginn 26. nóvember kl. 12.00 í stofu L201 í Háskólanum á Akureyri. Einnig mun fara fram undirritun samnings um áframhaldandi samstarf við Jafnréttisstofu og eru allir velkomnir.  

Karlar til ábyrgðar (KTÁ) er eina sérhæfða meðferðaúrræðið fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum hér á landi. Saga Karla til ábyrgðar, hófst með ráðstefnu sem Karlanefnd Jafnréttisráðs hélt árið 1994. Karlar til ábyrgðar var síðan tilraunaverkefni á árunum 1998-2002, en þá var því hætt sökum fjárhagserfiðleika. Á árunum 1998-2002 komu rúmlega sjötíu karlar í viðtöl hjá KTÁ. Verkefnisstjóri verkefnisins er Ingólfur V. Gíslason, lektor við Háskóla Íslands. Andrés Ragnarsson og Einar Gylfi Jónsson eru sálfræðingar verkefnisins

Meistaravörn í viðskipta- og raunvísindadeild

Miðvikudaginn 26. nóvember heldur Rut Hermannsdóttir meistaravörn sína í líftækni. Vörnin fer fram kl. 13:00 og verður í stofu L203 á Sólborg. Verkefni Rutar ber heitið „Effects of bioactive compounds on innate immunity and metamorphosis of halibut larvae".

Allir velkomnir! Verkefni Rutar var hluti af stærra verkefni, „Lífvirk efni í lúðueldi" sem var samstarfsverkefni Matís ohf., Háskólans á Akureyri, lúðuseiðaframleiðandans Fiskey hf., líftæknifyrirtækisins Genís ehf. og þorskeldisfyrirtækisins Brim hf. Verkefnið var styrkt af Líftækninet í auðlindanýtingu og Háskólasjóði KEA (2005-2007).


Athugasemdir

Nýjast