Samfélagið er lykill að íslensku

Ingibjörg Sigurðardóttir, aðjúnkt við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri    Mynd aðsend
Ingibjörg Sigurðardóttir, aðjúnkt við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri Mynd aðsend

Dagana 19.–20. september fer fram umfangsmikil ráðstefna í Háskólanum á Akureyri um kennslu íslensku sem annars máls með sérstakri áherslu á nám fullorðinna. Ráðstefnunni er ætlað að bregðast við ákalli samfélagsins, innflytjenda, framhaldsfræðsluaðila og háskóla um samráðsvettvang á þessu sviði.

Samtakamáttur hagur allra

„Tilgangur ráðstefnunnar er að þétta raðir fagfólks og efla samtal þeirra þvert á skólastig, festa stöðu og sjálfstæði fagsins í skólakerfinu og auka vitund um sérstöðu þess. Til lengri tíma litið vonumst við til að niðurstöður ráðstefnunnar muni nýtast við stefnumótun menntastofnana og stjórnvalda í framtíðinni“, segir Ingibjörg Sigurðardóttir, aðjúnkt við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og ein af skipuleggjendum ráðstefnunnar.

Viðburðurinn er haldinn í samstarfi fjölmargra aðila: Háskólans á Akureyri, Hugvísindasviðs og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Árnastofnunar, rannsóknarstofu RÍM í máltileinkun, Háskólans á Bifröst, ÍSBRÚ – félags kennara sem kenna íslensku sem annað mál, Dósaverksmiðjunnar, Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða og Símey – símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar.

Aðspurð til hverra ráðstefnunni er ætlað að höfða segir Ingibjörg: „Við viljum ná til sem flestra sem varðar íslenskukennslu víðs vegar um landið, enda er mikilvægt að sem flest taki þátt í samtalinu sem þar mun fara fram. Þar að auki er það okkur skipuleggjendum hjartans mál að vekja athygli á nauðsyn þess að samfélagið allt taki þátt í að opna málsamfélagið betur og nýta hvert tækifæri til þess að tala íslensku af virðingu og þolinmæði við þau sem eru að læra málið.“

Fjölbreytt erindi

Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri, setur ráðstefnuna og lokaávarpið verður í höndum Loga Más Einarssonar, ráðherra menningar-, nýsköpunar og háskólamála.

Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor emerita í annarsmálsfræðum, flytur lykilfyrirlestur sem nefnist Staða íslensku sem annars máls í fjöltyngdu samfélagi.

Á dagskránni eru fjölbreyttar málstofur, vinnustofur og kynningar. Þar á meðal eru málefni er varða kennslu íslensku sem annars máls á íslensku, aðlögun íslensku að Evrópska tungumálarammanum og virkni nemenda.

Ráðstefnan er öllum opin

Ráðstefnan er opin öllum þeim er láta sig málið varða. Frestur til að skrá sig er til mánudagsins 15. september. Ráðstefnugjaldið er 10.000 krónur en 5.000 krónur fyrir þá sem kjósa að vera í streymi. Háskólastúdentar greiða 5.000 krónur fyrir þátttöku á staðnum en fá frían aðgang í streymi. Innifalið í þátttöku á staðnum er hádegisverður báða dagana og kaffiveitingar.

Smelltu hér til að sjá nánari upplýsingar um viðburðinn og skráningu.

 

Nýjast