Andri Dan Traustason flutti ungur frá heimabæ sínum Húsavík til að stunda háskólanám. Fyrst á Akureyri og svo lá leiðin til Edinborgar í frekara nám. Heimahagarnir kölluðu að loknu námi og flutti hann aftur til Húsavíkur og hóf störf hjá PCC á Bakka, nú hefur hann tekið við stöðu framkvæmdastjóra hjá Húsavíkurdeild Ráðgjafa og þjónustufyrirtækinu Sessor. Andri segir að á Húsavík sé allt sem til þarf að fyrir ungt fjölskyldufólk og að hann vildi hvergi annars staðar vera.
„Ég er Húsavíkingur, alinn hér upp og búinn að vera hér meira og minna síðan en fór aðeins inn á Akureyri til að mennta mig í grunnnámi og svo var ég í Edinborg í Skotlandi í mastersnámi og vinna þar aðeins,“ segir Andri í samtali við blaðamann á starfstöð Sessor að Hafnarstétt 3, Langaneshúsinu; þar sem þekkingarstarfsemi hefur sprungið út á síðustu árum. Andri bætir við að þegar hann hafi komið heim aftur hafi planið verið að stoppa stutt.
„Ég ætlaði að koma bara mjög stutt heim en fór að vinna hjá Pcc og ég var þar þangað til ég ákvað að hætta þar í febrúar á þessu ári. Mér fannst tími til kominn að breyta til, búinn að vera þarna í 7 ár,“ segir hann.
Ráðgjafar- og þjónustufyrirtækið Sessor opnaði á dögunum nýja starfsstöð á Húsavík en þar verður boðið upp á þjónustu á sviði fjármála, bókhalds og upplýsingatækni. Andri Dan mun leiða uppbyggingu starfseminnar: „Það er ómetanlegt að fá tækifæri til að byggja upp starfsemi Sessor hér í minni heimabyggð,“ segir Andri. „Húsavík býr að öflugum mannauði, lifandi samfélagi og einstakri náttúru. Við erum gífurlega spennt fyrir þeim verkefnum sem framundan eru og hlökkum til að styðja viðskiptavini með framúrskarandi þjónustu og lausnum sem skila raunverulegum árangri,“ bætir Andri við en hann er rétt búinn að koma sér fyrir í þessu fallega og sögufræga húsi.
„Það er mjög gott að vera hérna, og ég var mjög heppinn að fá þetta húsnæði. Það skiptir líka máli því ég vil laða til mín besta fólkið og þá skiptir máli hvar maður er segir Andri og útskýrir svo fyrir blaðamanni hvað starfsemi Sessor snýst um.
„Sessor er félag sem er búið að vera í rekstri síðan 2017 fyrir sunnan. Félagið opnaði fyrr á þessu ári starfsstöð í Vestmannaeyjum og eru svo að opna þessa starfsstöð hérna núna. Það er verið að auka þjónustu við viðskiptavini á landbyggðinni um land allt. Ég held að þjónustan sem félagið veitir eigi klárt erindi hingað til Húsavíkur og fyrir fólk um allt land,“ útskýrir Andri og bætir við að um sé að ræða allsherjar þjónustu í upplýsingatækni, fjármálaráðgjöf og bókhaldi.
„Þannig að við getum komið inn í fyrirtæki í gegnum ákveðna ferla og séð hvernig allt er í rekstrinum. Við endurhönnum síðan alla þessa ferla með tilliti til nýrra kerfa. Við erum mikið í að tengja fyrirtæki við nýjustu launsir, þannig að það er svona verið að minnka mannshöndina í þessum ferlum. Vð getum s.s. endurraðað ferlunum, innleitt allt sem við þurfum að innleiða og séð um reksturinn á bókhaldi og öllu tilheyrandi,“ segir Andir og bætir við að félagið þjónusti fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum óháð staðsetningu.
Andri opnaði starfstöðina á Húsavík þann 1. september sl. og segist bjartsýnn á að framundan sé blómleg tíð.
„Ég vona auðvitað að sem flestir hafi samband sem eru í rekstri og skoði möguleikana sem við erum að bjóða uppá. hjá félaginu vinnur öflugt teymi, þó ég sé einn hér á Húsavík, þá þýðir það ekki að ég sitji einn að þessum verkefnum. Við leggjum áherslu á að brúa bilið á milli rekstraraðila og upplýsingartæknilausna með það að markmiði að auka sjálfvirkni, bæta rekstraröryggi og lækka heildarrekstrarkostnað,“ segir Andri og bætir við að það sé liðin tíð að þurfa stimpla reikninga og setja handvirkt í möppur, það sé í raun ótrúlega mikil sóun.
„Okkur er alvara með þessari opnun, og ég stefni að örum vexti félagsins hér á svæðinu. Við höfum til að mynda þegar auglýst eftir starfsfólki og fengum umsóknir frá frambærilegum aðilum strax á fyrsta degi.“
Þá segir Andri að það hafi mikla þýðingu fyrir sig persónulega að geta snúið aftur til heimabæjar síns úti á landi og starfað við það sem hann hefur menntað sig til.
„Mér finnst það náttúrlega frábært en fólk verður líka að vera tilbúið til að skapa sín tækifæri sjálft. En að sama skapi held ég að Húsavík búi að mjög öflugum mannauði, hvort sem hann býr hér núna eða er að hugsa um að flytjast hingað. Þetta sáum við glöggt á öllum þeim góðu umsóknum sem við fengum þegar við auglýstum starf hjá okkur. Það sýnir að það er fólk hér á svæðinu sem hefur fullt erindi í svona rekstur og hefur fulla burði til þess,“ útskýrir Andri og fer ekki leynt með það að Húsavík hafi fjölmarga kosti fyrir ungt fólk sem er í þeirri stöðu að vera búið að mennta sig og er tilbúið til að stofna fjölskyldu.
„Ég held að það fylgi því alveg klárir kostir fyrir fólk á vissum stað í lífinu að flytja aftur í heimabæinn sinn. Ég skil alveg að fólk fari eitthvað annað í einhvern tíma eins og ég gerði sjálfur, bara til að kynnast einhverju öðru. Það er ekki þar með sagt að það sé ekki hægt að koma aftur. Ég hef ekki orðið var við að það sé lítið að gera á Húsavík eða það sé leiðinlegt að búa á litlum stað, bara þvert á móti,“ segir Andir að lokum.