Það virðist sem að á síðustu árum hafi ríkt ákveðin hræðsla að ræða orkumál á Íslandi sem leitt hefur til ákveðnar stöðnunar hér á landi. Skort hefur hugrekki til þess að taka þessa umræðu af fullri alvöru og afleiðingarnar blasa við okkur. Staðan í orkumálum er alvarleg, ný útgefin grænbók – stöðuskýrsla áskorana í orkumálum staðfestir það. Áframhaldandi orkuskortur er fram undan og þá eru til staðar flutningstakmarkanir á milli landsvæða, það á tímum þegar græn orka hefur aldrei verið mikilvægari.
Á morgun, fimmtudaginn 17.mars kl. 21:00 verða haldnir tónleikar til heiðurs hljómsveitinni Vaya Con Dios. Guðrún Harpa Örvarsdóttir ætlar að feta í fótspor söngkonunnar Dani Klein og er hún ásamt hljómsveit að fara flytja lög með þessari frábæru hljómsveit Belga í fjórða sinn á Græna hattinum á Akureyri
Um síðustu helgi fór fram fyrsta listvinnustofa verkefnisins Allt til enda en þar er börnum á grunnskólaaldri gefinn kostur á að sækja þrjár ólíkar listvinnustofur í Listasafninu á Akureyri og vinna með skapandi listamönnum og hönnuðum
Um helgina var haldin vinnustofa í Hrísey um ýmsa möguleika sem felast í auknum komum skemmtiferðaskipa til eyjunnar. Til stendur að halda sambærilega málstofu í Grímsey innan tíðar en einnig hefur færst í aukana að skemmtiferðaskip leggi leið sína þangað.
Á fundi sem haldinn var mánudaginn 7. mars síðastliðinn samþykkti sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps stuðning til hjálparsamtaka vegna móttöku flóttafólks frá Úkraínu um leið og sveitarstjórn fordæmdi harðlega innrás í Úkraínu. Bókun sveitarstjórnar má lesa hér:
Listiskipið Borealis leggst að Oddeyrarbryggju í fyrramálið og má segja að koma skipsins marki upphaf ferðamennsku á sjó hér norðan heiða þetta árið. Skipið sem er tæp 62.000 tonn að stærð kemur að sögn Péturs Ólafssonar hafarstjóra með u.þ.b. 700 farþega.
Þrettán eru inniliggjandi á Sjúkrahúsinu á Akureyri með Covid-19. Átta á lyflækningadeild, þrír á skurðlækningadeild og tveir á gjörgæsludeild, hvorugur í öndunarvél.
Akureyrarbær er í samvinnu við Vegagerðina að undirbúa lagningu nýs göngu- og hjólastígs meðfram norðanverðum Leiruvegi, frá Drottningarbraut og austur að Leirubrú. Stefnt er að því að hafa stíginn tvískiptan, þannig að hjólandi og gangandi verða á sitt hvorum stígnum.
Scandinavian Cup er mótaröð á vegum Alþjóða Skíðasambandsins (FIS) sem haldið er á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum á hverju ári. Í ár hafa farið fram mót í Beitostölen í Noregi, Falun í Svíþjóð, Otepää í Eistlandi og mun síðasta mótið fara fram á Akureyri. Mótið er gríðarlega sterkt og hingað mæta skíðagöngumenn sem m.a. hafa verið að taka þátt í heimsbikarmótum í ár. Þetta er í fyrsta skipti sem Scandinavian Cup er haldið á Íslandi og má því sannarlega segja að þetta sé allra sterkasta skíðagöngumót sem haldið hefur verið hér á landi.
Tillaga uppstillingarnefndar um framboðslista Framsóknar & félagshyggju í Norðurþingi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar 14. maí var borinn upp til atkvæða á fjölmennum félagsfundi hjá Framsóknarfélagi Þingeyinga í dag, laugardaginn 12. mars. Tillagan var samþykkt samhljóða
Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, FMA, segir að samstarf iðnfélaganna í landinu í komandi kjarasamningum sé algert lykilatriði fyrir félagsmenn. Þetta kom fram í ræðu hans á aðalfundi félagsins en fundurinn var jafnframt afmælis- og hátíðarfundur í tilefni af 80 ára afmæli FMA. Engir félagsfundir voru á starfsárinu vegna kórónuveirufaraldursins en alls voru haldnir tíu stjórnarfundir. Félagsmönnum fjölgaði um 10 á starfsárinu og eru nú 453, þar af 8 konur.
Samband iðnfélaga í burðarliðnum?
Jóhann Rúnar kom víða við í ræðu sinni. Hann gagnrýndi forseta ASÍ og framkvæmdastjóra sambandsins fyrir stefnu þeirra í jafnréttismálum. „Nú á dögum snúast málin fyrst og fremst um kyn meira en félagsmenn eða almennt jafnrétti. Forseti virðist heldur ekki hafa skilning á að meta menntun eða reynslu til launa, sem er að mínu mati verulegt áhyggjuefni,“ sagði hann.
„Eiga iðnfélögin heima innan ASÍ – hvaða leið er okkur farsælust? Reyndar er það svo að formaður veltir því fyrir sér hvaða stefnu iðnaðarsamfélagið eigi að taka. Á að stofna formlega Samband iðnfélaga í því samstarfi sem iðnfélögin hafa verið í, svipað því sem Samiðn stendur fyrir nú og getur leyst þá hluti? Hin leiðin er einfaldlega að sameinast um framboð iðnfélaganna til embættis forseta ASÍ.“
Jóhann telur að samstarf iðnfélaganna á landsvísu sé eitt af því mikilvægasta fyrir félagsmenn FMA gagnvart réttindum og launasamningum inn í framtíðina
Stjórn Framsýnar telur sig ekki getað setið hjá hvað varðar þær hörmungar sem eiga sér stað í Úkraínu. Félagið hefur þegar ákveðið að leggja til eina íbúð undir flóttafólk frá Úkraínu og fleiri komi til þess að þörfin verði meiri fyrir íbúðir auk þess að styrkja hjálparstarf vegna flóttafólks frá Úkraínu um eina evru fyrir hvern félagsmann eða um kr. 300.000,-.
Einvalalið kennara starfaði við Barnaskólann eina á Akureyri um miðja 20. öldina. Ekki nóg með að þeir sinntu starfi sínu þar af mikilli kostgæfni heldur voru margir þeirra þekktir í bænum vegna annarra starfa sem þeir unnu að í frístundum.
Einar Óli Ólafsson er tónlistarmaður frá Húsavík sem kallar sig iLo. Í nóvember á síðasta ári gaf hann út plötuna Mind Like a Maze sem aðgengileg er á öllum helstu streymisveitum. Þetta er fyrsta plata Einars Óla en hæfileikarnir eru næstum yfirþyrmandi og nokkuð ljóst að hann á eftir að gera sig gildandi í tónlistarsenunni á næstu árum. Hæfileikaríkt fólk dregur líka að sér annað hæfileikaríkt fólk en að plötunni koma þungavigtar manneskjur í tónlistarbransanum, s.s. Pálmi Gunnarsson, Kristján Edelstein og Andrea Gylfadóttir.
Einar Óli semur sjálfur öll lög og texta, en hann hefur verið að semja tónlist í sjö ár og er hvergi nærri hættur að gefa úr plötur, enda á hann nú þegar mikið af efni á lager. Tónlistin er silkimjúk og draumkennd og snertir í hlustandanum tilfinningar djúpt í iðrum hjartans. Og nú loks þegar pestin skæða krefst ekki lengur þeirra takmarkana sem við höfum þurft að aðlaga okkur síðast liðin tvö ár; þá er líka kominn tími til að hlaða í útgáfutónleika. Það gerir Einar Óli, eða iLo í kvöld á Græna Hattinum klukkan 21. og aftur í Samkomuhúsinu á Húsavík á morgun föstudag klukkan 20. Það er óhætt að mæla með þessu tónleikum og fullyrða að engin verði svikinn en platan verður flutt í heild sinni.
Ég settist niður með Einari Óla á dögunum og ræddi við hann um tónlistina og upptökuferlið en hann segist vera mjög spenntur fyrir því að fá að spila plötuna loksins fyrir áhorfendur og lofar einstakri stemningu.
Tekin upp á einum degi
Platan var tekin upp á einum degi þann 30. apríl á síðasta ári á litlum sveitabæ í Eyjafjarðarsveit sem heitir Brúnir. „Já á það stemmir, við tókum þetta upp á einu bretti bara, live. Þetta var líka tekið upp á myndband og það verður hægt að horfa á þetta allt,“ segir Einar Óli en upptökuna verður aðgegnileg á vef sjónvarpsstöðvarinnar N4 innan skamms.
Þó að upptökur hafi aðeins staðið yfir þennan eina dag, þá kalla slíkar upptökur á gríðarlega mikinn undirbúning enda þarf allt að vera fínslípað og því sem næst fullkomið þegar tökur hefjast. „Jú þetta var alveg meira en að segja það og mikill undirbúningur á bak við upptökurnar. Ég byrjaði í raun að undirbúa mig fyrir tökurnar í september 2020 og við æfðum í marga mánuði enda gátum við ekkert tekið upp fyrr en við værum tilbúnir. Þetta er allt bara ein taka,“ útskýrir Einar Óli og bætir við að hann hafi verði afar heppinn með fólkið í kringum sig, enda hafi þetta ekki verið hægt nema með einvalaliði tónlistarfólks sem að plötunni koma.
Fagfólk í hverri stöðu
„Þegar ég fór í nám á Akureyri fyrir þremur árum síðan þá kynnist ég fullt af fólki sem hefur reynst mér gríðarlega vel í tónlistinni. Ég kynntist til dæmis Kristjáni Edelstein gítarleikara sem er líka pródúser. Hann var strax mjög spenntur fyrir því að taka upp tónlist með mér, enda byrjaði boltinn að rúlla fyrir mig eftir að ég kynntist Kristjáni. Svo kynntist ég Andreu Gylfa líka og er bara gríðarlega heppinn með fólkið í kringum mig,“ segir Einar Óli en Kristján spilar á gítar á plötunni og Andrea leikur á selló.
„Þau ásamt Pálma Gunnars eru með mér á plötunni, við erum 14 manns sem spilum á henni, ekki allir á sama tíma reyndar en þetta er fjöldinn sem kemur að plötunni. Og allt er þetta framúrskarandi listafólk,“ segir Einar Óli og bætir við að vinur hans, Sigfús Jónsson hafi annast upptökur og hljóðblöndun. „Hann hefur verið að taka upp undir nafninu Hljómbræður, ásamt bróður sínum Guðjóni. Sigfús tók upp plötuna og mixaði.“
„Þægileg tónlist“
Þegar ég spyr Einar Óla út í hvernig hann skilgreini tónlist sína, hvort hægt sé að setja hana í einhvern ákveðinn flokk tónlistarstefna; þá verður hann hugsi enda kannski ekki auðvelt að setja merkimiða á hugarfóstur sitt. „Mér finnst það eiginlega mjög erfitt, ég hef oft sagt að þetta sé bara svona indie, en yfirleitt þegar ég er spurður þá segi ég bara að þetta sé svona þægileg tónlist,“ útskýrir hann og lætur þar við sitja. Enda getur hlustandinn séð um það að meta hvar á landakorti stefna og strauma tónlist hans á heima.
Sjálfur segist Einar Óli hafa ákaflega blandaðan tónlistarsmekk og topplistinn uppfærist stöðugt. „Ég er rosalega blandaður og skipti um uppáhaldstónlistarmenn eins og nærbuxur en núna í augnablikinu er það tónlistarmaður sem heitir Matt Corby sem ég uppgötvaði alveg óvart en svo líka James Bay og John Mayer svo einhverjir séu nefndir.“
Þakklátur fyrir viðbrögðin
Einar var áður búinn að gefa út nokkur stök lög á streymisveitum undan farin tvö ár en þegar Mind Like a Maze kom út í lok nóvember fór hann að taka eftir aukinni hlustun. Hann er líka að skoða möguleika á því að gefa plötuna út á vinyl. „Ég er að láta mig dreyma um að koma þessu úr á vínyl líka en þá bara í takmörkuðu upplagi, aðallega af því mig langar svo mikið til að eiga þetta sjálfur á plötu,“ segir hann og hlær.
Verslunin Heimamenn opnaði í dag, fimmtudag á Húsavík. Heimamenn er ný byggingavöruverslun þar sem seldar verða allar helstu byggingavörur og verkfæri, ásamt málningu, hreinlætistækjum og öðru sem tengist viðhaldi og nýbyggingum. Þá hefur Karl Hjálmarsson flutt umboð sitt fyrir Símann í húsakynni Heimamanna. Þar sem verða á boðstólnum ýmis snjall og raftæki ásamt þjónustu fyrir áskriftir Símans.
Ásgeir Ólafs er kominn í loftið með nýjan hlaðvarpsþátt: Viðtalið. Fyrsti gestur hans er Kristján Már Þorsteinsson. Í þættinum ræddu þeir saman um mál 13 ára dóttur Kristjáns sem hefur vakið athygli hér á landi.