Við getum gert betur í verðmætasköpun

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson skrifa

Það virðist vera lítill áhugi hjá meirihlutanum á Akureyri að vinna að framtíðarsýn sem skilar sér í aukinni verðmætasköpun og í tekjum sveitarfélagsins til lengri tíma. Í seinni umræðum um fjárhagsáætlun lögðu bæjarfulltrúar Framsóknar eftirfarandi tillögu fram til afgreiðslu:

Mikilvægt er að við horfum til framtíðar og setjum okkur markmið um hvert við viljum stefna sem sveitarfélag til lengri tíma. Eitt af þeim verkefnum er að vinna metnaðarfulla stefnu í verðmætasköpun í samstarfi við atvinnulífið, stofnanir, frumkvöðla, íþróttahreyfinguna, menningarstofnanir og ferðaþjónustuaðila. Lagt er til að bæjarstjórn samþykki viðbótarfjármagn í mótun framtíðarsýnar um fjölbreytta atvinnuuppbyggingu. 

Þessari tillögu var hafnað. Rökin sem voru gefin fyrir því að hafna þessari tillögu voru að taka ætti upp aðalskipulagið og fara í vinnu við svæðisskipulag. Þetta eru sannarlega mikilvæg verkefni en stefna sem þessi ætti einmitt að vera undirbúningur fyrir slíka vinnu.

Það er á  starfsáætlun Akureyrarbæjar að fara í endurskoðun á síðustu atvinnumálastefnu, sem er runnin út, en við viljum útvíkka vinnuna. Í samtölum okkar við áhugasama bæjarbúa um aukna verðmætasköpun í bænum höfum við fundið fyrir því að það vantar sárlega þennan sameiginlega samræðugrundvöll sem við teljum að sveitarfélagið eigi að hafa forystu um að koma af stað. Auk þess teljum við mikilvægt að gera unga fólkinu okkar kleift að setjast hér að í framtíðinni og þá þarf að huga sérstaklega að fjölbreytni í atvinnulífi og aðstöðu til fjarvinnu.

Það eru einkum þrír þættir sem kalla á nýja atvinnustefnu Akureyrar og að vinna að mótun hennar hefjist án tafar.

Fyrir það fyrsta, ferðaþjónustan og þróun mála í flugsamgöngum

Okkur miðar vel áfram við að markaðssetja Akureyrarflugvöll fyrir beint flug og Norðurland er að verða sífellt eftirsóknarverðari áfangastaður erlendra ferðamanna. Það er hins vegar alls ekki ljóst að við séum í stakk búin til að taka á móti þessum vaxandi fjölda ferðamanna - og við verðum að geta gert okkur betur grein fyrir því hvað vöxtur þessarar atvinnugreinar getur þýtt fyrir almennan vöxt bæjarins og skipulag allrar þjónustu. Í þessu tilliti má einnig nefna íþróttatengda ferðamennsku.

Annar þáttur eru orkumálin

Með endurnýjun byggðarlínunnar er að verða til mjög frjór jarðvegur fyrir orkutengdan iðnað og starfsemi, og eru aðstæður hvað orkuafhendingu varðar að verða betri hér í Eyjafirðinum en víða annars staðar. Þessi staða varir hins vegar ekki að eilífu og mikilvægt að bregðast hratt og örugglega við. Auk þess þarf að vinna að framgangi Blöndulínu 3 hratt og örugglega.

Fyrirtæki eru í auknum mæli að velja sér staðsetningu út frá forsendum sjálfbærni og nýjar atvinnugreinar eru að verða til á þeim sömu forsendum. Atvinnuvegir sem eru nú þegar í vexti víða um land eru m.a.:

● Ýmis konar grænn iðnaður sem er háður orkunýtingu, t.d. framleiðsla rafeldsneytis sem margir sjá sem lykilinn að því að leysa af hólmi jarðefnaeldsneyti.

● Umhverfisvæn gagnaver sem ýta undir aukna stafsemi upplýsinga- og hátæknifyrirtækja á svæðinu.

● Og síðast en ekki síst matvælanýsköpun, þar sem við erum að sjá nýjar framleiðsluaðferðir sem miða að minnkandi kolefnisspori, svo sem þörungaræktun o.s.frv.

Það er nauðsynlegt að vera búin að greina þessi tækifæri til hlítar og jafnvel vera tilbúin með tillögu að forgangsröðun á nýtingu orkunnar - í samvinnu við önnur sveitarfélög á svæðinu.

Þeim mun betur undirbúin sem við erum, þeim mun betur erum við líka í stakk búin til að keppa um og draga að þau fyrirtæki sem við höfum áhuga á að komi hingað. Oft þurfa fyrirtæki að hreyfa sig hratt og geta ekki beðið eftir löngum og þyngslalegum úrvinnslutíma, ekki síst minni- eða meðalstóru fyrirtækin eða fyrirtæki á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi.

Þriðji þátturinn er vaxandi hlutverk Akureyrar sem stjórnsýslu- og þjónustumiðstöð fyrir stóran landshluta

Akureyrarbær er að hefja þátttöku í gerð nýrrar borgarstefnu þar sem m.a. verður horft til uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Ný, metnaðarfull atvinnustefna er okkar framlag inn í það samtal og sýnir að við erum tilbúin í aukinn vöxt og verðmætasköpun á svæðinu til framtíðar.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson eru bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri


Athugasemdir

Nýjast