Gengur betur að skíða upp í móti en niður í móti

Yvonne Höller er prófessor við Sálfræðideild Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri og hefur starfað við háskólann síðan 2018. Þann 24. nóvember síðastliðinn hlaut Yvonne Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs en þau eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað fram úr og skapar væntingar um framlag í vísindastarfi sem treysti stoðir mannlífs á Íslandi. 

„Ég hef sérhæft mig í að rannsaka starfsemi heilans þar sem ég nota rafeindaheilalínurita sem aðferð og taugafræðilegar og huglægar raskanir sem viðfangsefni. Eftir doktorsnámið í sálfræði bætti ég við mig meistaranámi í hagnýtri upplýsingatækni því það er einstaklega áhugavert að sameina allar þessar aðferðir og viðfangsefni. Í rannsóknarverkefnum mínum greini ég starfsemi heilans með aðferðum tölvuvísindanna, þar á meðal gervigreind,“ segir Yvonne.  

Í Austurríki og Þýskalandi notaði Yvonne þessar aðferðir í rannsóknarverkefnum sem tengdust sjúkdómum á borð við flogaveiki, heilabilun, meðvitundarröskun og mænuskaða, svo eitthvað sé nefnt. „Frá því ég kom fyrst til Akureyrar hef ég aðeins þurft að aðlaga og þróa rannsóknarverkefnin mín þar sem að ég starfa ekki lengur á taugafræðilegu sjúkrahúsi. Þess vegna hef ég frá árinu 2018 einblínt á að rannsaka skammdegisþunglyndi. Kennsla mín snýst þar af leiðandi fyrst og fremst um heila og taugafræði,“ útskýrir Yvonne. 

Frá árinu 2022 hefur Yvonne verið að rannsaka áhrif loftmengunar á andlega heilsu, og sér í lagi skammdegisþunglyndi, með aðstoð heilalínuritans. Þá er Yvonne enn í samstarfi við sérfræðinga á sviði flogaveiki erlendis og er hún í þann veginn að ljúka nokkrum verkefnum. Á næsta ári mun rannsóknarhópurinn byrja á stóru áhugaverðu verkefni sem snýst um nýja aðferð við heilamyndatöku: „Því miður má ég enn sem komið er ekki segja mikið um þetta verkefni en ég mun upplýsa um viðfangsefnið þegar við höfum undirritað styrktarsamninginn snemma á næsta ári.“ 

Yvonne er fædd á Ítalíu árið 1985. Hún er uppalin í þorpi í grennd við Brixen/Bressanone í Suður-Týról á Norður-Ítalíu við austurrísku landamærin: „Þetta er mjög fallegt svæði í hjarta Alpafjallanna og þar ríkir góð blanda af austurrískri og ítalskri menningu.“ Yvonne er stórhrifin af fjöllum, fjallgöngum og brekkuhlaupum. Eftir að hún lauk menntaskólanámi á Ítalíu flutti Yvonne til Salzburg í Austurríki þar sem hún hóf nám í sálfræði árið 2004. Þegar hún fór að aðstoða við rannsóknir ári síðar áttaði hún sig fljótlega á því að öll gagnagreining myndi ganga betur fyrir sig ef hún legði einnig stund á upplýsingatækni. Þess vegna útskrifaðist hún með MA- og síðar doktorspróf í sálfræði, ásamt MA-prófi í hagnýtri upplýsingatækni.  

En hvers vegna ákvað Yvonne að flytja til Akureyrar? „Ég hafði áður komið til Íslands og er stórhrifin af þessu fallega landi! En ég hafði aldrei komið til Akureyrar áður en ég sótti um starfið við HA. Málið er að ég er ekkert hrifin af miklum hita. Þegar ég var í Þýskalandi til að stunda rannsóknir í flogaveikistofnuninni í Bonn voru þar miklir sumarhitar og ég þráði rigningu á hverjum degi (en hún kom aldrei). Þegar ég var að svipast um eftir atvinnutækifærum sá ég auglýst starfið á Akureyri. Þá var hitinn í Bonn 40 gráður en 14 gráður á Akureyri svo það var auðvelt að ákveða hvar ég ætti að sækja um vinnu. Ég var að spá í rannsóknir á fólki sem haldið er sumarþunglyndi sem verður miklu algengara í framtíðinni í Mið-Evrópu vegna hærra hitastigs sem fylgir loftslagsbreytingum. Það eina sem aftrar mig frá því er að þá þyrfti ég að vera sjálf á staðnum í miklum hita og ég er ekki viss um að það sé akkúrat það sem ég vil.“ 

Aðspurð hvernig Yvonne ætlar að verja jólunum segir hún: „Ég er ekki ýkja trúuð en það sem skiptir mig mestu máli varðandi jólin er að spila og syngja öll trúarlegu og ekki trúarlegu jólalögin sem ég kannast við eftir kvöldverð á aðfangadagskvöld. Í minni fjölskyldu var hefð fyrir því að spila öll þessi jólalög áður en við börnin fengum jólagjafirnar – ég þvinga alla sem halda jólin hátíðleg með mér til að halda í þessa hefð.“ 

Uppáhalds jólalag:

Í rauninni á ég mér ekkert uppáhaldsjólalag eða -hljómsveit. Þar sem mamma mín var óperusöngvari á sínum yngri árum ætti ég sennilega að nefna einhverja klassíska tónlist af þessu tilefni – en ég vil gjarnan hafa úr mörgu að velja og ég kann vel að meta margt íslenskt tónlistarfólk. Ég er sérstaklega hrifin af Vor í Vaglaskógi í nýrri útsetningu Kaleo. Bæði lag og ljóð hljómar yndislega og svo smellpassar það við landslagið á svæðinu.  

 

Vissir þú að:  

  1. Ég er í hópi bestu viðskiptavina austurrísku súkkulaðiverksmiðjunnar Zotter (svo virðist að minnsta kosti vera þegar kreditkortareikningurinn minn er skoðaður) 
  2. Umhverfismál og loftslagsbreytingar skipta mig miklu máli. Því er ég mjög þakklát fyrir að fá að tilheyra umhverfisráði Háskólans á Akureyri – þar er hægt að koma svo mörgu til leiðar! 
  3. Mér gengur betur að skíða upp í móti en niður í móti. Þetta hljómar fáránlega með tilliti til þess að ég er fædd og uppalin á slóðum frægra skíðasvæða. 

Lokaorð eða góð ráðlegging:

Í hverjum einstaklingi er eitthvað dýrmætt sem enginn annar býr yfir. 

 


Athugasemdir

Nýjast