Betra veganesti fyrir ungmenni út í lífið er besta fjárfestingin til framtíðar

Sigríður Ásta Hauksdóttir  verkefnisstjóri hjá Bjarmahlíð, miðstöð þolenda ofbeldis á Norðurlandi. .…
Sigríður Ásta Hauksdóttir verkefnisstjóri hjá Bjarmahlíð, miðstöð þolenda ofbeldis á Norðurlandi. .

„Við finnum fyrir aukningu nú í ár. Á fyrstu tíu mánuðum ársins voru skráðar fleiri komur til okkar en var fyrir sama tíma í fyrra. Árið er auðvitað ekki búið en okkar tilfinning er sú að við munum sjá hærri tölu við árslok en var fyrir árið 2021,“ segir Sigríður Ásta Hauksdóttir  verkefnisstjóri hjá Bjarmahlíð miðstöð þolenda ofbeldis á Norðurlandi.

Hún segir oft flókið að skýra út hvaða ástæður liggja að baki aukningu, þær geti verið fleiri en ein. „Það má auðvitað benda á að það er ákveðið ákall í gangi í samfélaginu um að tekið sé á þessum málum, þau hafa verið að koma upp á yfirborðið af meiri þunga en áður. Við höfum farið í gegnum þessar byltingar undanfarin ár og þær eru örugglega að skila sér. Almenningur hefur ekki sama þol og áður fyrir ofbeldi og þeir sem fyrir því verða eru ekki eins hræddir og áður við að stíga fram og segja frá og að leita sér aðstoðar.“

Öll úrræði á einum stað

Rúmlega 100 manns leita til Bjarmahlíðar að meðaltali á hverju ári vegna ofbeldis sem það hefur verið beitt. „Þolendur upplifa oft úrræðaleysi og óöryggi í kjölfar ofbeldis, en markmið okkar hjá Bjarmahlíð er að leiða þolendur fram hjá veggjum kerfisins, sem þeir rekast oft á í fyrstu skrefum sínum í átt til hjálpar og stuðnings,“ segir Sigríður Ásta og bætir við að mikilvægt sé að hafa í huga að á bak við hverja komu í Bjarmahlíð sé einstaklingur sem oft sé brotinn og óöruggur og efist um að það ofbeldi sem hann hafi verið beittur sé nægilega alvarlegt til að leita sér aðstoðar.

Sigríður Ásta segir að til að koma í veg fyrir ofbeldi þurfi að efla fræðslu um hvað ofbeldi er, bregðast við því og aðstoða bæði þolendur og gerendur. Hlutverk Bjarmahlíðar sé fyrst og fremst að veita þolendum ofbeldis skjót úrræði og stuðning. „Hugmyndafræði Bjarmahlíðar snýr að því að þolendur ofbeldis þurfi einungis að koma í miðstöðina og þar sé öll úrræði fyrir þá á einum stað í öruggu og hlýlegu umhverfi. Við gegnum ekki því hlutverki að vera meðferðaraðili, heldur tengiliður við þá samstarfsaðila og úrræði sem miðstöðin hefur aðgang að auk þess að bjóða upp á námskeið. Þetta er í samræmi við þá hugmyndafræði sem Bjarmahlíð starfar eftir um einn viðkomustað fyrir þá sem leita sér aðstoðar eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi,“ segir hún. Þjónusta í Bjarmahlíð er ókeypis.

Fræðsla og forvarnarhlutverk

Auk þess nefnir Sigríður Ásta að hlutverk miðstöðvarinnar sé einnig að fræða fólk um einkenni, eðli og afleiðingar hvers kyns ofbeldis. Eitt af verkefnunum sé að sinna fræðslu- og forvarnarhlutverki í samfélaginu og koma þeim skilaboðum á framfæri að aldrei sé hægt að sætta sig við ofbeldi. „Við höfum á liðnum misserum horft til þess að útvíkka starfsemi Bjarmahlíðar þannig að þjónustan sé ekki aðeins í boði fyrir þá þolendur ofbeldis sem orðnir eru 18 ára, heldur nái einnig til ungmenna á framhaldsskólaaldri, frá 16 ára. Ein ástæða þess er að ungmenni undir 18 ára hafa leitað til Bjarmahlíðar og einnig hafa foreldrar og fagfólk úr skólunum leitað ráðgjafar hjá okkur, alveg frá því miðstöðin var opnuð fyrir fjórum árum. Þar hafa samfélagsbyltingar síðustu missera og vitundarvakning almennings um ofbeldi haft sitt að segja.“

Á dögunum var undirritað samkomulag um þróun samstarfs milli Bjarmahlíðar og allra framhaldsskólanna á Norðurlandi.   „Besta leiðin til að bjóða ný þjónustuúrræði er að ræða við ungmennin sjálf og því er samtal við þau, t.d. í gegnum nemendafélög dýrmæt, en þannig heyrum við og getum tekið tillit til þeirra sjónarmiða, hlúð að merkingarbærri þátttöku þeirra og haft að auki í huga vernd og réttindi þeirra lögum samkvæmt,“ segir Sigríður Ásta.

Bregðumst við því sem er að gerast í samtímanum

Starfsemi líkt og sú sem Bjarmahlíð stendur fyrir þróast ávallt með samfélaginu og bregst við því sem er að gerast í samtímanum. „Við vitum sem samfélag að við þurfum að gera miklu betur til að hjálpa ungmennunum okkar að komast yfir áföll og afleiðingar þess, eins og ofbeldis. Tímamótarannsóknir undafarinna ára á sálrænum áföllum og afleiðingum þeirra hafa fært okkur þá þekkingu að áfallið sjálft, í okkar tilviki ofbeldi, er ekki bara sjálfur atburðurinn, heldur einnig hvernig einstaklingurinn upplifir hann og hvaða áhrif hann hefur í framhaldinu. Að gefa ungmennum betra veganesti út í lífið með því að leiðrétta skekkjurnar sem verða til vegna alls konar áfalla og ofbeldis er besta fjárfesting okkar sem samfélags til framtíðar og í leiðinni forvörn gegn frekara ofbeldi. Því er gríðarlega mikilvægt að grípa snemma inn í  og það er okkar vilji,“ segir Sigríður Ásta.


Athugasemdir

Nýjast