Hálsmelar – Falin útivistarperla

Göngu og náttúruunnendur ættu að gefa  útivistarsvæðinu á Hálsamelum gaum.  Myndir thingeyjarsveit.i…
Göngu og náttúruunnendur ættu að gefa útivistarsvæðinu á Hálsamelum gaum. Myndir thingeyjarsveit.is

Þingeyjarsveit vill benda íbúum á einstakt útivistarsvæði sem margir hafa ekki enn uppgötvað, Hálsmelana. Árið 2022 var vígður 1,4 km langur göngustígur sem liggur um melana og býður upp á nærandi útivist í afar fallegu umhverfi.

Hálsmelarnir státa af fjölbreyttri gróðurflóru og einstakri ró og svæðið hentar jafnt fyrir stuttar sem lengri ferðir. Stígurinn er kjörinn fyrir göngur, hjólreiðar, lautarferðir – eða einfaldlega til að njóta kyrrðarinnar.

Ekið frá þjóðvegi 1 upp Vaglaskógarveg nr. 836, beygt til hægri þegar komið er upp brekkuna og aftur til hægri, þá er komið að bílastæði og upphafi göngustígsins.

 

Fróðleikur um Hálsmelana skrifaður af Sigurði Skúlasyni og Pétri Halldórssyni árið 2014;

Mikil breyting á örfáum árum

Hálsmelar kallast melarnir norðan Vaglaskógar í Fnjóskadal á hálsinum sem skilur dalinn og Ljósavatnsskarð. Þar voru miklar andstæður örsnauðra mela og gróskumikils birkiskógarins þegar Hálsmelar voru friðaðir 1989. Árið eftir var hafin gróðursetning í melana undir merkjum landgræðsluskógaverkefnisins. Að verkinu stóð Skógræktarfélag Fnjóskdæla.

Nú hafa verið gróðursettar um 130 þúsund skógarplöntur á Hálsmelum, mest lerki. Fólk úr Fnjóskadal og nágrenni hefur unnið verkið í sjálfboðavinnu. Hin seinni ár hefur lítils háttar verið klippt af tvítoppum og unnið að annarri umhirðu. Árangurinn hefur verið mjög góður og er mikil breyting á svæðinu á örfáum árum.

Hálsmelar eru lýsandi dæmi um hve fljótt má ná góðum árangri með skógrækt á mjög snauðu landi, sérstaklega á láglendi. Nú er kominn skógur þar sem var auðnin ein fyrir aldarfjórðungi. Land sem áður gaf ekkert af sér myndar nú verðmætan skóg sem senn fer að gefa arð. Skjólið, bætta ásýnd landsins, auðugra vistkerfi, aukið fuglalíf og fleira sem jafnan fylgir skógrækt fáum við í kaupbæti.“

Það er á heimasíðu Þingeyjarsveitar sem þessi ábending  fyrst birtist

Nýjast