Alls fengu foreldrar 81 barns heimgreiðslur frá Akureyrarbæ árið 2024. Greiðslur námu tæplega 38,6 milljónum króna. Á tímabilinu janúar til maí á þessu ári hafa foreldrar 61 barns fengið heimgreiðslur að upphæð 15,5 milljónir króna.
Reglur um heimgreiðslur voru innleiddar sem tilraunaverkefni í október 2023. Reglurnar voru teknar upp á ný í bæjarráði 7. mars 2024 og voru þá framlengdar óbreyttar til og með 31. júlí 2025. Fyrsta árið, eða á tímabilinu frá október til desember 2023 fengur foreldrar 18 barna heimgreiðslu að upphæð ríflega 4,5 milljónir króna. Þetta kemur fram í minnisblaði um nýtingu og reynslu á heimgreiðslum til foreldra í Akureyrarbæ sem unnið var fyrir fræðslu- og lýðheilsuráð
Mánaðarleg upphæð heimgreiðslna hefur verið 105.000 krónur frá upphafi. Þær greiðast sem styrkur og eru undanþegnar tekjuskatti. Greiðslurnar hafa nýst foreldrum sem ekki hafa fengið dagvistun / leikskóla fyrir börn sem náð hafa 12 mánaða aldri. Greiðslur haldast þar til barn byrjar í leikskóla eða hjá dagforeldri.
Meðalaldur barna sem hófu leikskólagöngu haustið 2024 var 18,68 mánuðir. Heimgreiðslur komu til móts við fjölskyldur fjárhagslega ef dagforeldrar eru ekki nýttir. Greiðslurnar eru ekki skilyrðum bundnar öðrum en þeim að ekki séu nýttar niðurgreiðslur vegna vistunar fyrir barnið hjá dagforeldri eða í leikskóla.
Örfá dæmi eru um að undanþágur hafi verið gerðar þess efnis að foreldrar fresti skólavist barns í leikskóla og njóti lengur heimgreiðslna. Þannig hafa heimgreiðslur stutt við það að foreldrar velja að hafa barnið lengur heima. Því er lagt til að heimgreiðslur verði festar í sessi og gildistími ótímabundinn. Upphæð heimgreiðslna ákvarðast við endurskoðun gjaldskrár ár hvert.