Tilboð bárust frá tveimur lögaðilum í lóðirnar við Hofsbót 1 og 3, en frestur til að sækja um rann út í gær. Þeir sem buðu voru annars vegar SS Byggir sem bauð 251 milljón króna í lóðirnar og Sigtún Þróunarfélag bauð 235 milljónir.
Auglýst var eftir tilboði í byggingarrétt lóðanna Hofsbót 1 og 3 þann 14. maí sl. og rann fresturinn til að senda inn tilboð út kl. 12 fimmtudaginn 26. júní 2025.
Þarf að undirbúa vel og vandlega
Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi segir mjög erfitt að segja fyrir um nákvæmlega hvenær framkvæmdir geta hafist á svæðinu. „Þetta er stórt og mikið verkefni sem undirbúa þarf vel og vandlega. Næstu vikur fara í formlegheit sem tengjast skilum á ýmsum gögnum og síðan má gera ráð fyrir að hönnun fari í gang,“
Lóðirnar tvær eru innan deiliskipulags miðbæjar Akureyrar og er á báðum lóðum gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum. Heimilt er að vera með atvinnustarfsemi á annarri hæð. Gert er ráð fyrir sameiginlegum bílakjallara fyrir Hofsbót 1 og 3 með inn- og útakstri frá Strandgötu og eru lóðirnar tvær því boðnar út sem ein heild.