Afmælis- og aðventuhátíð Hjartalags

Hulda Ólafsdóttir eigandi Hjartalags
Hulda Ólafsdóttir eigandi Hjartalags

Afmælis- og aðventuhátíð Hjartalags  fer fram á morgun laugardag,  Hulda Ólafsdóttir  það stendur mikið til?  ,,Já það má segja það, Hjartalag er 9 ára á þessu ári og í fyrsta sinn eftir Covid sem ég opna vinnustofuna mína upp á gátt fyrir gestum svo það er mikil tilhlökkun. Ég hef svo boðið tveimur góðum vinkonum mínum að vera með mér þennan dag, Kristínu S. Bjarnadóttur í Blúndum og blómum og Ölmu Lilju Ævarsdóttur blómahönnuði úr Salvíu. Við leggjum mikið upp úr að taka vel á móti gestum með notalegri og glaðlegri aðventustemningu, kveikt verður á eldstæði úti í garði og boðið upp á heita jólaglögg og piparkökur. Svo er að sjálfsögðu hægt að kaupa íslenska hönnun í jólapakkann, finna aðventuskreytingu fyrir sig og sína eða næla sér í gómsæta Randalínu með kaffinu svo eitthvað sé nefnt“, sagði Hulda og tilhlökkunin leyndi sér ekki.

Það sem á boðstólum verður er það allt unnið af ykkur stöllum?

,,Það má segja það, ég verð með allar mínar vörur saman komnar á einum stað en það sem er helst að nefna eru vörulínan Jökull en hugmyndin að henni kviknaði þegar ég fór í göngu á hálendinu. Svo kom ég með þrjá nýja jólailmi, kerti sem hafa slegið í gegn.

Kristín verður með nýjasta árganginn í dagatölum, fallegar og dúnmjúkar jólaservétturnar ásamt öllum hennar fallegu og hlýlegu vörum, sem byggja á ljósmyndum hennar og textum.

Alma sem er blómahönnuður og mikill fagurkeri verður með dásamlega fallegar aðventu- og jólaskreytingar, kransa og leiðisgreinar svo eitthvað sé nefnt.“

Hvernig er að vinna  svona skapandi vinnu?  Aldrei skortur á hugmyndum?

,,Það er afskaplega sjaldan sem er skortur á hugmyndum, það er einmitt það sem er svo gaman, af einni hugmynd fæðast yfirleitt aðrar tíu og þegar maður er umhverfis fleira skapandi fólk verður svo mikil atorka, flæði og gleði sem gefur kraft og orku til að skapa meira. Annars kemur sköpunarkrafturinn oftar hjá mér þegar ég er ein í náttúrunni, eða sit heima við í ró og næði eða að hlusta á tónlist sem hugmyndir kvikna. Það þarf þó að rækta þetta og gefa sér rými og tíma til að leyfa hugmyndum að flæða og ekki gleyma að hafa gaman, gera nærandi og skemmtilega hluti fyrir líkama, sál, hjarta og huga“.

Hvar verður ykkur að finna og hvenær  verður  opnaða fyrir gesti og gangandi?

,,Þið finnið okkur á vinnustofu Hjartalags að Þórunnarstræti 97, gengið inn í kjallara vestan við húsið og er opið laugardaginn 10. desember frá 11-22“  Sagði Hulda  að endingu  og rauk í frekari undirbúning vegna afmælishátíðarinnar.


Athugasemdir

Nýjast