
Freyvangsleikhúsið frumsýnir Bangsímon og Grislíng í jólasveinaleit
„Það má segja að þetta hafi allt saman gerst alveg óvart,“ segir Jóhanna S. Ingólfsdóttir höfundur verksins Bangsímon og Grislingur í jólasveinaleit sem Freyvangsleikhúsið frumsýnir á morgun, föstudaginn 17. nóvember í Freyvangi. Jóhanna er einnig leikstjóri.
Jóhanna segir að Freyvangsleikhúsið hafi sett upp aðventusýningu í fyrra og hafi hún heppnast einkar vel, en verkið var um þá bræður Karíus og Baktus, hún leikstýrði og tveir stjórnarmenn léku bræðurnar. „Við höfðum nýlega tekið við rekstri Freyvangs og þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti, þetta mátti ekki kosta of mikið þannig að við gengum í öll verk,“ segir hún og sama staða er uppi á teningnum nú.