Borgarhólsskóli fór með sigur af hólmi í Fiðringi

Fiðringshópur Borgarhólsskóla á sviðinu í Hofi. Mynd/Borgarhólsskóli.
Fiðringshópur Borgarhólsskóla á sviðinu í Hofi. Mynd/Borgarhólsskóli.

Fiðringur á Norðurlandi var haldinn í Hofi í þriðja sinn í gærkvöldi, 8. maí. Tíu skólar af Norðurlandi tóku þátt í ár og sýndu  afrakstur vinnu sinnar. Mikil áhersla er lögð á að hugmyndin og útfærslan sé alfarið unglinganna sjálfra og einnig sjá þau um tæknimál og búninga, leikmynd og förðun. Fiðringur er hæfileikakeppni að fyrirmynd Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi.

Það var Borgarhólsskóli á Húsavík sem stóð upp sem sigurvegari en Fiðringur hefur verið skylduvalgrein meðal nemenda í áttunda, níunda og tíunda bekk, skólans. Leiðbeinandi hópsins er Arnþór Þórsteinsson.

Á vef Borgarhólsskóla segir að nemendur hafi samið sitt eigið atriði og hafi æft af kappi alla vorönnina undir handleiðslu Arnþórs en í vinnunni sé mikil áhersla lögð á sjálfstæð og lýðræðisleg vinnubrögð, hugmyndin og útfærslan kemur frá nemendum sjálfum. 

Þá hafi hópurinn einnig séð alfarið um listræna útfærslu hvað varðar búninga, leikmynd, sviðhreyfingar, ljós og hljóð. Þannig sé þátttaka í Fiðringi heljarinnar skóli í sjálfu sér.

Siguratriði Borgarhólsskóla fjallaði um samspil einstaklinga og gervigreindar.

Keppnin verður aðgengileg síðar í spilara RÚV.


Athugasemdir

Nýjast