Lóðarhafi við Hamragerði fengið um 1,4 milljónir í dagsektir vegna umgengni

Innan lóðarmarka eru á þriðja tug ökutækja í misjöfnu ástandi, auk fleiri lausamuna.
Innan lóðarmarka eru á þriðja tug ökutækja í misjöfnu ástandi, auk fleiri lausamuna.

„Við höfum sent út reikninga fyrir um 1,4 milljónum króna frá því samþykkt var að leggja dagsektir á lóðarhafa við Hamragerði 15,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra. Dagsektir voru fyrst lagaðar á 26. febrúar síðastliðinn vegna brota um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði nefndarinnar sem og vegna brota á meðhöndlun úrgangs.

Enn hefur ekki verið brugðist við kröfum Heilbrigðisnefndar um tiltekt á lóðinni. Innan lóðarmarka eru á þriðja tug ökutækja í misjöfnu ástandi, auk fleiri lausamuna. Lóðin er því enn til lýta fyrir umhverfið og umgengni um hana veldur nágrönnum og vegfarendum ama segir í bókun nefndarinnar sem undrast aðgerðarleysi og tómlæti lóðarhafa í máli þessu. Nefndin minnir á að innheimtu dagsekta verður haldið áfram þar til úr verður bætt. Þá íhugar nefndin að endurskoða upphæð dagsekta á næsta fundi hafi tiltekt á lóðinni þá ekki enn farið fram.

Geta hækkað dagsektir

Leifur segir að dagsektir séu 20 þúsund krónur, búið er að senda út reikninga frá því aðgerðin hófst fyrir um 1,4 milljónum króna og innheimtu dagsekta verði haldið áfram þar til bætt verði úr ástandinu. „Heilbrigðisnefnd hefur samþykkt að endurskoða upphæð dagsekta á næsta fundi verði ekki búið að laga til fyrir þann tíma,“ segir hann en samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er heimilt að dagsektir geti orðið allt að 500 þúsund krónur á dag og dagsektir sem ekki innheimtast eru aðfararhæfar.

Slökkviðilið á Akureyri er einnig með málið á sinni könnu og er að vinna í því samkvæmt þeim heimildum sem það hefur. Það er gert í samvinnu við Akureyrarbæ og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.


Athugasemdir

Nýjast