,,Dáleiðsla frábær leið til að vinna úr áföllum"

Hulda Ólafsdóttir ásamt fleirum stendur fyrir Dáleiðsludeginum í Hofi á laugardag, 11. maí þar sem í…
Hulda Ólafsdóttir ásamt fleirum stendur fyrir Dáleiðsludeginum í Hofi á laugardag, 11. maí þar sem í boði er áhugaverð dagskrá og fræðsla um dáleiðslu.

„Ég hef alltaf haft áhuga á andlegum málum, trúað á eitthvað meira en vísindin og bæði fundið, séð og heyrt í gegnum ævina. Það er samt  ekki fyrr en núna undanfarna mánuði sem þetta er að banka meira á dyrnar hjá mér enda hefur þetta verið töluvert feimnismál og nóg af fordómum bæði í kringum mig og hið innra með sjálfri mér. Þetta finnst mér þó vera að breytast eða kannski er það bara það að ég er farin að umgangast fleira fólk sem er á þessari sömu línu,“ segir Hulda Ólafsdóttir sem ásamt fleirum stendur fyrir Dáleiðsludeginum í Hofi á Akureyri næstkomandi laugardag, 11. maí frá kl. 13 til 17.

Hún segir að í boði verði áhugaverð og skemmtileg dagskrá, þar sem hægt verður að fræðast um meðferðar­­­­­­dáleiðslu, sjálfsdáleiðslu og dáleiðslunám auk þess að upplifa hópdáleiðslu.  „Meðferðardáleiðsla er frábær leið til að ná tökum á kvíða, vinna úr áföllum og sorg, styrkja sjálfsmyndina, ná betra jafnvægi og einbeitni, finna meiri sátt og skilning á eigið líf. Einnig er hægt að vinna með verki, fóbíur, flughræðslu, prófkvíða, vanlíðan vegna ofbeldis ásamt mörgu öðru.,“ segir Hulda.

Hugræn endurforritun

Mikil vakning hefur verð á Akureyri, Norðurlandi og raunar öllu landinu hjá fólki að læra fræðin og nýta sér þau að hennar sögn og er um að ræða fólk með margs konar bakgrunn að læra dáleiðslu.
„Dáleiðslan sem við vinnum með og lærum í Dáleiðsluskóla Íslands er meðferðardáleiðsla og heitir aðferðin Hugræn endurforritun. Eins og nafnið gefur til kynna er hugurinn endurforritaður og fenginn til að breyta sér, taka upp nýja hegðun. „Það er gert með því að tengjast við undirvitundina sem fæddist með okkur og þekkir allar okkar minningar. Við fáum svo fram Innri Visku (Kjarna) og erum þannig með „tvo“ aðila í stólnum sem við erum að ræða við. Þetta er algjörlega magnað og í raun erfitt að skilja nema að vera sjálfur í stólnum.“

Meðferðarþeginn er ávallt meðvitaður um hvað er að gerast og er alltaf við stjórn. Margir óttast að segja og gera eitthvað sem þeir vilja ekki gera eða ljóstra upp leyndarmálum en það virkar ekki þannig. Oft veit ég ekki hvað er að gerast hjá dáleiðsluþeganum þar sem vinnan fer alfarið fram í huga meðferðarþega en dáleiðari leiðir meðferðina og fylgist með að allt sé í lagi. Þess vegna er hægt að vinna með vandamál sem dáleiðari fær engar eða litlar upplýsingar um.

 

 

Kemur alltaf að skuldadögunum

Hulda segist fá til sín fólk frá um það bil 25 ára aldri og upp úr og ánægjulegt sé að fjölgað hafi í hópi karlmanna undanfarið. „Það er gaman að sjá að þeir eru að leita sér hjálpar, en segja ekki endilega öðrum frá því að þeir séu á leið í dáleiðslu. Margir eru komnir í þrot andlega og geta ekki meira. Hafa farið í gegnum lífið á hnefanum, ef til vill unnið of mikið, lent í áföllum og lítið unnið úr þeim og halda bara áfram, eru forritaðir þannig af samfélaginu frá barnsaldri. Áföll eru hluti af lífinu, atburðir sem gerast og maður verður að halda áfram, lifa sínu lífi, hugsa um sig og fólkið sitt, starfið og fleira, en til að geta átt betra líf er mikilvægt að vinna úr áföllunum, það kemur alltaf að skuldadögum ef ekkert er að gert,“ segir Hulda.

Hún segir að einnig sé fólk sem hafi unnið heilmikið í sér og sínum áföllum og vilji halda áfram og prófa eitthvað nýtt.  Hún bætir við að enginn ætti þó að fara í dáleiðslu sem ekki er tilbúinn til þess eða er að koma fyrir einhvern annan. Allir þurfi að vera klárir og tilbúnir að vinna mikla sjálfsvinnu. „Þetta er ekki eitthvað töfrabragð og ég að beita töfrasprotanum, lækningin eða heilunin felst í vinnu meðferðaraðilans sem fer fram í huga hans,“ segir Hulda.

 


Athugasemdir

Nýjast