Lokaorðið - Áhrifamáttur bæjarmiðla

Heiðrún E. jónsdóttir átti lokaorðið i blaðinu s.l. fimmtudag
Heiðrún E. jónsdóttir átti lokaorðið i blaðinu s.l. fimmtudag

Ég sem Húsvíkingur þekki vel til bæjarblaða. Víkurblað, með Jóhannes Sigurjónsson í stafni, var ætíð lesið spjaldanna á milli í hverri viku.

Faðir minn hefur aldrei verið mikið fyrir athygli. Fyrir 60 ára afmæli hans, fengum við systur þá prýðishugmynd að halda upp á afmæli hans. Við vildum koma föður á óvart, en bjóða sem flestum.

Settum við veglega auglýsingu í Víkurblaðið að Jón Helgi Gestsson, búfræðingur með meiru myndi halda upp á 60 ára afmæli í húsi Björgunarsveitarinnar. Opið hús um kvöldið og öllum boðið sem töldu sig þekkja hann. Fyrirsögnin var LEYNIBOÐ. Til að sá gamli myndi ekki lesa um eigin leyniboð fór móðir með hann í sveita bíltúr og fannst föður þessi miklu áhugi móður á sveitum sæta nokkurri furðu.

Við systur létum greipar sópa í Vínbúðinni, hentum í veitingar og skreyttum salinn. Faðir var umboðsmaður Sjóvár, og fengum við aðila til að tilkynna um vatnstjón í salnum. Móðir hafði óvænt miklar skoðanir á klæðaburði hans og vildi frúin fara með prúðbúin. Hringir þá grái skífusíminn og gamall sveitungi afboðar sig í afmælið. Faðir kom af fjöllum, sleit símtalinu, sagði að sveitunginn væri fullur eða fengið heilablóðfall. Faðir mætir með frúnna prúðbúna, í tjónaskoðunina, þar var fullt hús og sungið honum til heiðurs, en söngnum stýrði Friðfinnur Hermannsson og hélt uppi fjörinu.

Faðir var orðlaus í byrjun en varð svo bara kátur enda í góðra vina hópi. Allt þar til við systur kölluðum hann upp og afhentum honum reikningana fyrir veitingum og auglýsingunni.

Í stafræna heiminum í dag er erfiðara að koma fólki á óvart og þyrfti meira en sveitarúnt, en bæjarmiðlar eru nú sem áður ómissandi.


Athugasemdir

Nýjast