Buðu upp á bakkelsi frá Suður-Ameríku

Í Gryfjunni í gær - Andressa, Celimar, Feiruz, Haysmar og Fiora.    Mynd  vma.is
Í Gryfjunni í gær - Andressa, Celimar, Feiruz, Haysmar og Fiora. Mynd vma.is

Andressa Andrade E. Andrade, Celimar Yerlin Gamboa Maturet, Feiruz Nasser Morabito, Haysmar Ledosvkaya Rangel Blanco og Fiora Alessa Pacini Barragán eru í hópi nemenda af erlendum uppruna sem hafa stundað nám í VMA í vetur, m.a. lagt stund á nám í íslensku sem öðru máli.

Þær ákváðu sem eilítinn þakklætisvott á síðasta kennsludegi vorannar í gær að bjóða þeim sem vildu að gæða sér á gómsætu bakkelsi sem þær bjuggu til og á ættir að rekja til heimalanda þeirra í Suður-Ameríku; Brasilíu, Venesúela og Kólumbíu.

Þetta var sannarlega skemmtilegt framtak og gómsætt var það góðgæti sem borið var á borð!

Þessar myndir voru teknar við þetta tækifæri í Gryfjunni í gær.

Nemendurnir í íslensku sem öðru máli hafa verið duglegir í vetur að baka og bjóða samnemendum sínum upp á eitt og annað frá sínum heimalöndum. Meðal annars bökuðu úkraínskir nemendur vel þekkt úkraínskt brauð sem ber nafnið Pampyshky. Eftirfarandi er uppskriftin:

300 ml heitt vatn
1 tsk sykur
10 g þurrger
750 g hveiti
1,5 tsk salt
1 egg
70 g smjör
3-4 matsk sólblómaolía
4 hvítlauksrif
dill - eftir smekk

1. Hellið 250 ml af volgu vatni í djúpa skál. Bætið við sykri og geri og látið standa í 2 mínútur. Bætið síðan einum og hálfum bolla af hveiti og 1 tsk af salti út í, hyljið með handklæði og setjið á hlýjan stað.
2. Þegar deigið hefur tvöfaldast að stærð er egginu og smjörinu bætt út í og einnig afganginum af hveitinu. Hnoðið deigið vel, það á að vera teygjanlegt og festist ekki við hendurnar. Hyljið það með handklæði og látið standa á heitum stað í 60 mín til að lyfta sér.
3. Smyrjið hendurnar með jurtaolíu, hnoðið deigið og myndið litlar kúlur. Setjið þær á bökunarplötu, sem einnig skal smyrja með jurtaolíu. Til að gera brauðið dúnkennt skal hylja það aftur með handklæði og láta standa í 30 mín í viðbót.
4. Bakið í 20-25 mín við 200°C.
5. Hellið 4 msk af vatni í skál, bætið út í 2 msk af sólblómaolíu, pressuðum hvítlauk, fínsöxuðum kryddjurtum og salti eftir smekk. Þegar bollurnar eru bakaðar skulu þær penslaðar með blöndunni.

Frá þessi segir fyrst á vma.is


Athugasemdir

Nýjast