Almenn bjartsýni í ferðaþjónustu á Húsavík

Húsavik                                                        Mynd diamondcircle.is
Húsavik Mynd diamondcircle.is

Vikan fór af stað með brakandi blíðu á Húsavík og við það vaknaði ferðaþjónustan til lífsins en þrátt fyrir áskoranir sem blasa við vegna jarðhræringa á Reykjanesi, verðbólgu og hárra vaxta er jákvæðni og bjartsýn ríkjandi í greininni.  Aðalfundur Húsavíkurstofu fór fram nýverið en forstöðumaður, Örlygur Hnefill Örlygsson segir í samtali við Vikublaðið  að það sé mikill hugur í fólki fyrir komandi vertíð.

 „Maður finnur það  vel í  hvað það er að færast mikið líf í bæinn,“ sagði hann og bætti við að aðalfundurinn hafi verið vel sóttur og jafnframt hafi hann heimsótt 12 fyrirtæki í verslun og ferðaþjónustu fyrir fundinn ásamt sveitarstjóra þar sem þau fengu kynningu á rekstri þeirra.
Öflug starfsemi í bænum
Örlygur segir það hafa verið gott að fá beint í æð hvað öll þessi öflugu fyrirtæki í bænum eru að fást við. „Það kom mér á óvart hvað þessi fyrirtæki eru mörg hver lúmsk í stærð, ég held að bæjarbúar átti sig ekki alltaf á því. Svo hafði ég líka gaman að því að sjá hvað það er mikil nýsköpun í gangi, það er nánast hvert einasta fyrirtæki í einhverri nýsköpun. Margt sem ég hafði ekki hugmynd um sjálfur, þó tel ég mig vera ágætlega tengdan,“ útskýrir Örlygur hrifinn og nefndi sem dæmi skemmtileg verkefni hjá Saltvík hestamiðstöð.
„Ég hafði t.d. mjög gaman af því að kynnast hugmyndum Bjarna Páls hjá Saltvík hestaferðum. Hann er að búa til vöru sem heita Landvættirnar, þar sem einn landsfjórðungur er tekinn fyrir á einu sumri og er því raun um að ræða fjögurra ára hestaferð. Mér skilst að það sé slegist um að komast að í þessar ferðir. Hann er búinn að hanna ótrúlega flott „konsept“ í kringum þetta. Svona er þetta víða; verið að vinna með svo flottar og skemmtilegar hugmyndir,“ útskýrir Örlygur og Katrín Sigurjónsdóttir tekur í sama streng.
Sveitarstjóri vonast eftir húsvísku sumri
„Mér fannst mjög skemmtilegt að sjá hvað starfsemi ferðaþjónustufyrirtækjanna okkar er mikil og fjölbreytt. Þetta er mun yfirgripsmeira en ég hafði gert mér í hugarlund þó að ég vissi nú töluvert fyrir,“ sagði hún í samtali við Vikublaðið. Katrín sagðist hafa skynjað mikinn kraft í fólki í heimsókn sinni og að ferðaþjónustu aðilar væru fullir eldmóðs fyrir komandi sumri.
„Já almennt fannst mér fólk hlakka til að taka enn eina ferðamannavertíð. Það eina sem ég skynjaði annað, er að það virðist ekki vera jafn mikið um bókanir og stundum á þessum tíma árs. Fólk talaði um það að þetta væri ýfið minna en oft áður. En vonandi hressist það, við fáum vonandi gott sumar veðurfarslega séð, það skiptir gríðarlegu máli fyrir samfélagið að fá ekta húsavískt sumar.
 Við þekkjum það líka með íslenska ferðamenn, þeir vakna bara um morguninn, kanna veðurspána og elta svo besta veðrið,“ segir Katrín.

 Bjarni Páll Vilhjálmsson hjá Saltvík Hestaferðum og Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings
 Áskoranir sem þarf að takast á við
 Örlygur segir að fólk fari langt á bjartsýninni en óneitanlega væru áskoranir vegna náttúruvár. „Ég fann það á fólki á fundinum að það lítur björtum augum á framtíðina en það er auðvitað smá uggur í fólki vegna eldgosanna á Reykjanesi. Það er að hafa áhrif, það er alveg ljóst. Fólk hefur líka aðeins verið að finna fyrir því að það eru afbókanir en ekki eins mikið og ég átti von á,“ segir Örlygur og bætir við að hann hafi fylgst náið með umræðunni í Bandaríkjunum um jarðhræringarnar á Reykjanesi og hefur áhyggjur af fréttaflutningi í æsingarstíl.
Skaðlegur fréttaflutningur
Aðspurður segir Örlygur að mögulega hafi hagsmunasamtök ferðaþjónustunnar verið full sein að bregðast við röngum fréttaflutningi í erlendum miðlum. „Það er kannski hægt að segja það, við erum svo góðu vön. Eldgosin höfðu verið að gera svo mikið fyrir okkur áður en þau færðust nær byggð í Grindavík.
Það er allt annar tónn í fréttaflutningi erlendis af því að þetta er svo nálægt byggð. Á spjallborðum sérstaklega í Bandaríkjunum þar hafa alls konar sögur lifað góðu lífi eins og t.d. að öll baðlón á Íslandi séu lokuð af því að Bláa lónið hefur þurft að loka tímabundið. Það er erfitt að drepa svona sögur. Þetta er náttúrlega vont fyrir okkar svæði hérna. Það birtust í einu dagblaði í Bandaríkjunum þegar flæddi yfir veginn við Bláa lónið, fyrirsögn;  „Hraun gleypir Bláa lónið“. Þetta er það sem maður er kvíðinn fyrir, að svona lagað skemmi fyrir.
Ég er minna uggandi varðandi Evrópuþjóðirnar, en hvað Bandaríkjamenn varðar, þá gæti þetta haft áhrif og svo gæti sjálfsagt haft einhver áhrif að það er kosningaár hjá þeim en almennt fyrir utan þetta þá finnst mér vera góður hugur í fólki.“
Sóknarfæri í skemmtiferðaskipum
Þá greinir Örlygur frá því að skrifað hafi verið formlega undir samkomulag milli Húsavíkurstofu og Norðurþings um markaðsstarf tengt komum skemmtiferðaskipa í hafnir sveitarfélagsins. „Nú er hægt að fara vinna markvisst að þessu gagnvart söluaðilum. Við erum reyndar ekki að keppa að þessu fyrir komandi sumar heldur erum að vinna ár fram í tímann og jafnvel tvö ár. Við höfum væntingar til þess að þetta geti aukið nýtni hafnarinnar hvað komur skemmtiferðaskipa varðar,“ segir Örlygur og bætir við að það hafi ekki verið mikið álag vegna skemmtiferðskipa og vel hægt að sækja fram í þeim efnum.
„Við höfum verið að fá miklu minni skip en tíðkast á Ísafirði og Akureyri. Það er ekki hægt að bera það saman. Við höfum verið að fá skip með farþegafjölda upp á 200 - 500 manns. Talsverður hópur þeirra farþega fer beint úr bænum sem við viljum minnka auðvitað en ég hef ekki skynjað á fólki í bænum að þetta sé að auka álag. Ég held að það sé alveg hljómgrunnur fyrir því að auka þetta svolítið áður en fólki finnst vera þrengt að,“ útskýrir Örlygur og bætir við að skemmtiferðaskipin komi með góðar tekjur inn í Hafnarsjóð.
Örlygur Hnefill Örlygsson Húsavíkurstofu

 Vandað sé til verka

 Þá leggur Örlygur áherslu á að vandað sé til verka í markaðssetningu hafna sveitarfélagsins og stefnan sé að vinna með ábyrgum aðilum. „Við settum okkur það markmið að tala við þá aðila sem eru búnir að setja sér einhverja umhverfisstefnu og fara eftir henni,“ segir hann en viðurkennir að það séu skiptar skoðanir á þeirri vegferð að fjölga komum skemmtiferðaskipa. „Þetta er ekki alveg átakalaust.  Það eru aðilar innan stofunnar sem eru á móti fjölgun skemmtiferðaskipa en við erum að reyna varða þennan veg á þann hátt að það geti orðið samtaða um brautina sem við förum,“ segir Örlygur að lokum.


Athugasemdir

Nýjast